Ástand tveggja pilta sem voru í jeppling sem fór fram af Óseyrarbryggju í Hafnarfirði í gærkvöldi er sagt alvarlegt. Að sögn lögreglu liggja þeir nú á gjörgæsludeild Landspítalans en líðan þriðja piltsins er sögð „eftir atvikum“.
Tilkynnt var um að bifreið piltanna hefði fari fram af bryggjunni og hafnað í sjónum skömmu eftir klukkan níu í gærkvöldi. Fjölmennt lið viðbragðsaðila var kallað á staðinn, þar á meðal fimm kafarar frá séraðgerðadeild Landhelgisgæslunnar.
Í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir að þriðji pilturinn hafi verið lagður inn á „aðra deild spítalans“. Ekki sé hægt að veita frekari upplýsingar um slysið að svo stöddu.
Hafnarsvæðið er vaktað með myndavélum og segir Lúðvík Geirsson, hafnarstjóri hjá Hafnarfjarðarhöfnum, við Vísi að lögregla hafi fengið aðgang að myndefni úr eftirlitsmyndavélum hafnarinnar þegar í gærkvöldi.
Rauði krossinn veitti ungmennum sálrænan stuðning í Fríkirkjunni í Hafnarfirði sem var opnuð vegna slyssins í gærkvöldi.