Körfubolti

Annar sigur Borgnesinga í röð | Öruggt hjá toppliðunum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sigrún Sjöfn Ámundadóttir og stöllur hennar í Skallagrími hafa unnið tvo leiki í röð.
Sigrún Sjöfn Ámundadóttir og stöllur hennar í Skallagrími hafa unnið tvo leiki í röð. vísir/vilhelm

Skallagrímur vann sinn annan leik í röð í Domino's deild kvenna þegar bar sigurorð af Grindavík, 58-55, í miklum baráttuleik í kvöld.

Borgnesingar eru í 4. sæti deildarinnar með 20 stig en Grindvíkingar á botninum með aðeins tvö stig.

Keira Robinson skoraði 22 stig fyrir Skallagrím. Maja Michalska var með 13 stig og ellefu fráköst og Emilie Sofie Hesseldal skoraði tólf stig og tók 13 fráköst.

Hrund Skúladóttir og Jordan Reynolds skoruðu tólf stig hvor fyrir Grindavík. Reynolds tók einnig 14 fráköst.

Valur átti ekki í neinum vandræðum með að leggja Snæfell að velli, 93-54, á Hlíðarenda.

Valskonur eru áfram á toppi deildarinnar en Snæfellingar eru í 6. sætinu.

Sylvía Rún Hálfdánsdóttir skoraði 24 stig fyrir Val og Kiana Johnson var með 23 stig og ellefu fráköst. Rebekka Rán Karlsdóttir var stigahæst í liði Snæfells með ellefu stig.

KR gerði góða ferð í Kópavoginn og vann 19 stiga sigur á Breiðabliki, 60-79.

Danielle Rodriguez skoraði 31 stig fyrir KR-inga sem eru í 2. sæti deildarinnar með 24 stig, fjórum stigum á eftir toppliði Valskvenna.

Danni Williams bar af í liði Blika. Hún skoraði 34 stig og tók 15 fráköst. Breiðablik er í 7. sæti deildarinnar með fjögur stig.

Þá unnu Haukar Keflavík, 83-70, á heimavelli.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×