Boðuðum verkfallsaðgerðum félagsmanna Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) hefur verið frestað á meðan hættustig almannavarna vegna kórónuveirunnar er í gildi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá LSS.
Verkfallsaðgerðir LSS, sem beindust gegn bæði ríkinu og sveitarfélögum, áttu að hefjast 10. mars næstkomandi og voru tímasettar samhliða aðgerðum annarra aðildarfélaga BSRB, sem boðað hafa til verkfalla frá 9. mars.
Í tilkynningu LSS segir að félagið treysti á að samningsaðilar nýti sér ekki þessa frestun til að tefja samninga og haldi áfram viðræðum með sama krafti, „eins og að verkföllum hafi ekki verið frestað“. Frestunin gildir þar til Almannavarnir hafa aflýst hættustigi.
Stór hluti slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna eru á svokölluðum undanþágulistum sem þýðir í raun að þeir mega ekki fara í verkföll. Boðaðar verkfallsaðgerðir þeirra fólust einkum í stöðvun á sjúkraflutningum milli heilbrigðisstofnana.
Sóttvarnalæknir, landlæknir og ríkislögreglustjóri hafa lýst yfir áhyggjum vegna yfirvofandi og yfirstandandi verkfalla BSRB og Eflingar. Embættin hafa biðlað til deiluaðila að afstýra verkföllunum vegna faraldurs kórónuveirunnar.