Íslenski boltinn

Toppliðin missa lykilmenn í sóttkví en spila

Sindri Sverrisson skrifar
Valur og Breiðablik eru efst í Pepsi Max-deildinni. Þess má geta að leikmennirnir á myndinni eru ekki í sóttkví svo vitað sé.
Valur og Breiðablik eru efst í Pepsi Max-deildinni. Þess má geta að leikmennirnir á myndinni eru ekki í sóttkví svo vitað sé. VÍSIR/DANÍEL

Valur og Breiðablik, efstu lið Pepsi Max-deildar kvenna í fótbolta, verða án leikmanns eða leikmanna á næstunni þar sem þeir eru komnir í sóttkví.

Um er að ræða lykilleikmann í Breiðabliki og tvo leikmenn Vals sem spilað hafa alla níu leiki liðsins í deildinni í sumar. Málið tengist smiti sem kom upp í starfsliði kvennaliðs KR.

Þrátt fyrir að liðin missi þessa leikmenn er ekki grundvöllur fyrir því að leikjum þeirra verði frestað. Til þess þyrftu að lágmarki fimm leikmenn að vera úr leik vegna sóttkvíar eða einangrunar, samkvæmt sérstakri reglugerð KSÍ vegna kórónuveirufaraldursins.

Breiðablik er efst í Pepsi Max-deildinni, fimm stigum á undan Val, og á stórleik við Selfoss á mánudagskvöld. Leik liðsins við KR 29. ágúst var hins vegar frestað þar sem KR-liðið er komið í sóttkví. Breiðablik mætir svo Þrótti R. 6. september og gæti þá teflt fram fyrrnefndum leikmanni. 

Valur mætir Þrótti á mánudaginn og sækir svo Þór/KA heim næsta föstudag. Liðið spilar svo ekki aftur fyrr en 6. september gegn ÍBV og ætti þá að vera með fullskipað lið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×