Um 250 manns hafa dvalið í hinum svokölluðu farsóttarhúsum í þessari bylgju faraldursins, en alls hírðust 50 þar í gegnum þá fyrstu. Gestafjöldinn er því fimmfalt meiri og er enn að aukast að sögn Gylfa Þórs Þorsteinssonar, umsjónarmanns farsóttarhúsanna.
Húsin eru fjögur; tvö við Rauðarárstíg í Reykjavík, eitt á Akureyri og eitt á Egilsstöðum. Flest hafa sætt einangrun eða sóttkví í farsóttarhúsunum í Reykjavík og er þorri þeirra erlendir ferðamenn eða umsækjendur um alþjóðlega vernd. Eitthvað hefur jafnframt verið um Íslendinga sem eiga ekki í nein hús að venda. Sem stendur eru 18 í einangrun og 18 í sóttkví á Rauðárstíg og einn í einangrun á Akureyri.
Í samtali við Morgunblaðið segir Gylfi að þegar mest lét hafi 55 einstaklingar verið í farsóttarhúsunum í einu. Álagið hafi verið gríðarlegt og hafi starfsfólk verið fjölgað. Sem stendur séu starfsmennirnir átta, sjálfboðaliðarnir fjórir en þeir hafi verið 40 í fyrri bylgjunni.
„Sjálfboðaliðum hefur því fækkað tífalt á sama tíma og fjöldi gesta fimmfaldaðist,“ segir Gylfi. Dæmi séu um að fólk hafi þurft að verja sex vikum í farsóttarhúsinu, það taki á og reynt að létta vistfólki lífið. Enn sem komið er hafi enginn starfsmaður né sjálfboðaliði smitast.