Íslenski boltinn

„Heyrði bara í Steina og Óla í hausnum á mér“

Atli Freyr Arason skrifar
Sveindís Jane Jónsdóttir hefur verið frábær í sumar.
Sveindís Jane Jónsdóttir hefur verið frábær í sumar. VÍSIR/VILHELM

Sveindís Jane skoraði tvö mörk og lagði upp það þriðja í 3-1 sigri Breiðabliks á Stjörnunni í Pepsi Max-deildinni fyrr í kvöld.

„Ég er ógeðslega ánægð með karakterinn, að hafa ekki hætt eftir að fá þetta mark í andlitið og hvernig við mættum í seinni hálfleikinn, ótrúlega grimmar og flottar,“ sagði Sveindís sigurreif eftir leik.

það var sjáanlegur munur á liðinu milli hálfleika og Sveindís var sérstaklega spurð að því hvað Þorsteinn sagði í hálfleik til að fá þær til að mæta svona grimmar og flottar út í seinni hálfleikinn.

„Hann lét okkur að við gætum allar svo miklu betur sem við vissum líka sjálfar. Við ákvöðum allar að reyna að bæta okkur um svona 10% því að við vissum að við ættum það inni. Þess vegna komum við út í seinni hálfleik og gerðum mikið betur en í fyrri,“ svaraði Sveindís.

Allt í okkar höndum

Þriðja mark Breiðabliks í kvöld er með því flottara sem hefur verið skorað á þessu tímabili og er það allt vegna glæsilegs undirbúnings Sveindísar. Aðspurð út í markið sagði Sveindís:

„Ég heyrði bara í Steina og Óla í hausnum á mér. Þeir eru búnir að vera að segja mér að keyra á markið og koma þá með sendinguna frekar en að vera að dúlla mér við hliðarlínuna. Þannig ég gerði í raun og veru bara það sem þeir eru búnir að vera að segja mér að gera.“

Valur og Breiðablik unnu bæði sína leiki í kvöld og eru í algjörum sérflokki í þessari deild. Sveindís tekur undir það.

„Það er allavegana það sem allir eru að segja. Mér finnst það ansi líklegt því það er svolítið langt í þriðja sætið. Ég held að þetta verði bara Breiðablik og Valur, ef við klárum okkar leiki þá erum við með þetta þar sem að þetta er allt í okkar höndum,“ sagði Sveindís að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×