Innlent

Hvetur Hús­víkinga til að huga að skjálfta­vörnum

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Tveir jarðskjálftar yfir 4 hafa riðið yfir á Norðurlandi í dag.
Tveir jarðskjálftar yfir 4 hafa riðið yfir á Norðurlandi í dag. Veðurstofa Íslands/skjáskot

Eldfjallafræðingur hvetur Húsvíkinga til þess að huga að skjálftavörnum á heimilum sínum. Tveir stórir skjálftar hafa riðið yfir nærri Húsavík í dag, annar var 4 að stærð en sá fyrri sem var með upptök á sama svæði, um 20 kílómetra norðvestur af Húsavík, var 4,6 að stærð.

„Það eru núna komnir þarna tveir stórir skjálftar þarna á stuttum tíma, þetta er í stærra lagi og er alltaf að færast nær og er á þessari sprungu sem liggur úr Eyjafirðinum og í gegn um Húsavík,“ segir Ármann Höskuldsson eldfjallasérfræðingur í samtali við fréttastofu. .

Hann segir nokkuð algengt að skjálftarnir séu svo nálægt landi ef heilt ár er skoðað. „Þeir eru bara orðnir stærri og það var náttúrulega þessi mikla sem var í sumar, þannig að fólk verður bara að fara að öllu með gát og ekki láta þetta koma sér á óvart.“

Ármann Höskuldsson eldfjallasérfræðingur. Vísir/Vilhelm

Ármann segir ekki ólíklegt að fleiri stórir skjálftar fylgi eftir. „Það er reglan á þessari sprungu að hún hreyfir sig á svona hundrað ára fresti og síðasta hreyfing inn við Húsavík var þarna á nítjándu öldinni, undir lok nítjándu aldar. Þannig að hún er komin á tíma og það vita þetta nú flestir á Húsavík.“

Grunur liggur á að sögn Ármanns að stærstu skjálftarnir í hrinunni undir lok nítjándu aldar hafi verið um 6 á stærð. „Það þarf að huga að þessu þegar eru svona miklir og stórir skjálftar að þeir færist allataf nær og nær Húsavík.“

Gömul hús geta skemmst að sögn Ármanns en flest hús skemmast ekki þar sem byggt er samkvæmt ákveðnum staðli sem gerir ráð fyrir stórum skjálftum. Það sé frekar innbú sem geti skemmst í skjálftum, því þurfi að huga að því.

Hægt er að nálgast tilmæli almannavarna um skjálftavarnir hér


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×