Ástralska söng- og tónlistarkonan Sia vissi að hún myndi ættleiða dreng sem síðar varð sonur hennar, frá því hún sá hann fyrst í sjónvarpinu.
Þetta kemur fram í viðtali Vogue Australia við söngkonuna, en hún prýðir einmitt forsíðu októberútgáfu tímaritsins. Þar ræðir hún um ákvörðun sína að ættleiða tvo 18 ára stráka á síðasta ári. Hún segir hugmyndina hafa kviknað þegar hún horfði á heimildamynd.
„Ég er með raunveruleikaþætti og heimildamyndir á heilanum. Ég horfði á heimildamynd og sá son minn,“ segir Sia og bætir við að hún hafi fundið fyrir tengingu við drenginn um leið og hún áttaði sig á því að hann ætti engan náinn að. Hún hafi því ákveðið að ættleiða hann og vin hans.
„Ég var bara: „Ha? Hann á engan að. Guð minn góður. Ég ætla að finna hann og verða mamma hans.“ Og það er það sem ég gerði,“ segir söngkonan í viðtali við Vogue Australia, sem hægt er að nálgast hér.