Íslenski boltinn

Hver er Arnar Þór Viðarsson?

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arnar Þór Viðarsson hefur átt viðburðarríkan feril í fótboltanum.
Arnar Þór Viðarsson hefur átt viðburðarríkan feril í fótboltanum.

Arnar Þór Viðarsson hefur verið ráðinn þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta til næstu tveggja ára. En hver er Arnar Þór Viðarsson?

Arnar Þór Viðarsson er 42 ára, fæddur 15. mars 1978. Hann er elsti sonur hjónanna Viðars Halldórssonar og Guðrúnar Bjarnadóttur. Viðar lék allan sinn feril með FH og 27 landsleiki á árunum 1976-83. Hann hefur lengi starfað hjá FH og er í dag formaður félagsins.

Davíð Þór og Bjarni Þór Viðarssynir, yngri bræður Arnars.

Arnar á tvo yngri bræður, Davíð Þór (f. 1984) og Bjarna Þór (f. 1988). Báðir léku þeir sem atvinnumenn og eiga A-landsleiki á ferilskránni. Þá var Bjarni fyrirliði U-21 árs landsliðsins sem komst á EM 2011. Davíð var lengi fyrirliði FH og er í dag aðstoðarþjálfari liðsins.

Arnar lék sína fyrstu leiki með FH í efstu deild 1995, þá aðeins sautján ára. Hann spilaði níu af átján deildarleikjum FH-inga sem féllu eftir að hafa verið í efstu deild frá 1989. Sumarið 1996 lék Arnar svo alla átján leiki FH í næstefstu deild.

Arnar í baráttu við Nolberto Solano í leik Lokeren og Newcastle United í InterToto keppninni sálugu.getty/John Walton

Árið 1997 samdi Arnar við belgíska liðið Lokeren sem hann lék með til 2006, ef frá eru taldar tvær stuttar lánsdvalir, annars vegar hjá FH og hins vegar hjá Lillestrøm í Noregi.

Hjá Lokeren lék Arnar með nokkrum samlöndum sínum, meðal annars Rúnari Kristinssyni, Arnari Grétarssyni og Marel Baldvinssyni.

Arnar fagnar góðum sigri með Lokeren. Við hlið hans er Rúnar Kristinsson.getty/Tim De Waele

Arnar lék sinn fyrsta A-landsleik gegn Suður-Afríku í júní 1998. Alls urðu landsleikirnir 52 talsins og mörkin tvö. Síðasti landsleikur Arnars var í tapinu fræga fyrir Liechtenstein, 3-0, 2007. 

Arnar lék einnig fjölda leikja fyrir yngri landsliðin og alls á hann 95 landsleiki fyrir Ísland á ferilskránni.

Arnar reynir að halda aftur af Bernd Schnieder í leik Íslands og Þýskalands 2003.getty/Tony Marshall

Eftir níu ár hjá Lokeren fór Arnar til Twente í Hollandi 2006. Hann lék með liðinu tímabilið 2006-07 en tímabilið 2007-08 var hann lánaður til De Graafschap í Hollandi.

Árið 2008 fór Arnar svo til Cercle Brugge þar sem hann lék þar til hann lagði skóna á hilluna 2014. Þar lék Arnar með Eiði Smára Guðjohnsen, jafnaldra sínum, sem verður aðstoðarmaður hans með íslenska landsliðið.

Síðustu sex ár ferilsins lék Arnar með Cercle Brugge.getty/Nico Vereecken

Arnar lék alls 391 leik í belgísku úrvalsdeildinni. Hann er sá Íslendingur sem hefur leikið flesta leiki í einni efstu deild í Evrópu. Alls lék Arnar 465 deildarleiki á ferlinum.

Eftir að skórnir fóru á hilluna gerðist Arnar aðstoðarmaður Lorenzo Staelens hjá Cercle Brugge. Hann tók svo við liðinu í byrjun október 2014. Arnar var þjálfari Cercle Brugge þar til um miðjan mars 2015 þegar hann var látinn taka pokann sinn. Arnar stýrði Cercle Brugge í 25 leikjum; sex unnust, þrír enduðu með jafntefli og sextán töpuðust.

Arnar stýrði Cercle Brugge í nokkra mánuði.GETTY/William Van Hecke

Eftir dvölina hjá Cercle Brugge fór Arnar aftur til Lokeren þar sem hann var aðstoðarþjálfari, meðal annars Rúnars Kristinssonar, og stýrði varaliði félagsins. Arnar tók við sem bráðabirgðaþjálfari Lokeren haustið 2018 og stýrði liðinu í einum leik.

Í janúar 2019 var Arnar ráðinn þjálfari U-21 árs landsliðs Íslands og í lok apríl sama ár var hann ráðinn yfirmaður knattspyrnusviðs hjá KSÍ. Hann var sá fyrsti sem gegndi því starfi og sinnir því áfram þar til ráðið verður í þá stöðu.

Arnar hefur hins vegar látið af störfum sem þjálfari U-21 árs landsliðsins. Hann kom Íslandi á EM 2021 en þetta er í annað sinn sem U-21 árs landsliðið kemst á lokamót Evrópumótsins. Arnar stýrði einnig íslenska A-landsliðinu gegn Belgíu í Þjóðadeildinni í haust ásamt Davíð Snorra Jónassyni eftir að þjálfarar landsliðsins, Erik Hamrén og Freyr Alexandersson, þurftu að fara í sóttkví.

Arnar hefur þegar stýrt íslenska A-landsliðinu einu sinni.vísir/vilhelm

Arnar stýrði U-21 árs landsliðinu í þrettán leikjum; átta þeirra unnust, einn endaði með jafntefli og fjórir töpuðust.

Fyrstu leikir Arnars með íslenska A-landsliðið eru í undankeppni HM 2022 í mars á næsta ári. Fyrsti leikurinn verður gegn fjórföldum heimsmeisturum Þýskalands í Duisburg 25. mars.

Arnar er giftur Bracke Saskia og eiga þau þrjú börn, Sunnu Líf, Marel Nóa og Viktor Nóa. Þess má til gamans geta að Arnar og Bracke er fædd sama dag sama ár, 15. mars 1978.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×