Íslendingum með kórónuveiruna fjölgar hratt en á síðustu tveimur dögum hafa vel á annað hundrað greinst með veiruna. Þá eru taldar miklar líkur að Ástralskur ferðamaður um fertugt hafi látist af völdum COVID-19 hér á landi. Rætt verður við yfirlögregluþjón hjá almannavörnum í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2 klukkan 18:30.
Vaxandi áhyggjur eru af því að kórónuveiran berist í fjölmennar flóttamannabúðir í Sýrlandi. Tala látinna hækkar hratt í Írak og ekkert lát er á útbreiðslu faraldursins. Farið verður ítarlega yfir stöðuna erlendis í fréttatímanum.
Einnig verður rætt við forseta Alþingis en starfsáætlun þingsins hefur í fyrsta sinn verið tekin úr sambandi til að fjalla einungis um eitt mál; Covid-19.
Björn Zoega, forstjóri Karolinska sjúkrahússins í Stokkhólmi, segir fólk vera að búa sig undir að það muni taka tíma fyrir faraldurinn að ganga yfir.
Einnig verður rætt við ríkislögreglustjóra um reglur sem kveða á um að almennir borgarar geti verið kvaddir til starfa sem hjálparliðar og AFS-samtökin um stöðu fjölda skiptinema sem eru að reyna að komast aftur heim til Íslands.
Þetta og margt fleira á samtengdum rásum Bylgjunnar, Stöðvar 2 og Vísis klukkan 18:30.