Ísland og Rúmenía áttu í dag að mætast í umspilsleik fyrir úrslitakeppni Evrópumótsins í fótbolta. Leiknum hefur verið frestað fram í júní og mótinu fram á næsta ár.
Vináttulandsleik Íslands og Rúmeníu í FIFA 20 hefur aftur á móti ekki verið frestað og fer hann fram klukkan 16.30 í dag.
Aron Þormar Lárusson og Jóhann Ólafur Jóhannsson, sem léku með landsliði Íslands í PES í undankeppni eEURO 2020, munu skipa lið Íslands í leiknum.
Leiknir verða fjórir leikir og hefst viðureignin klukkan 16.30. Stöð 2 eSport sýnir beint frá leikjunum og er einnig hægt að horfa á þá hér á Vísi.