Farþegaskipið Norræna eða Norröna kom til hafnar á Seyðisfirði í morgun, talsverð röskun hefur verið á áætlun skipsins undanfarið vegna faraldurs kórónuveiru en vegna takmarkana í Danmörku hefur ekki verið unnt að fara um borð í skipið utan Þórshafnar og Hirtshals.
Munu áætlanir Norrænu því riðlast til 16. maí hið minnsta en áætlað er að takmörkunum verði aflétt í Danaveldi þann 10. næsta mánaðar.
Á upplýsingafundi Almannavarna í gær sagði Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra að engar nýjar reglur hefðu verið teknar í gildi vegna komu norrænu.
„Flestir sem eru að koma með Norrænu sem ekki eru Íslendingar eru verkamenn sem eru að koma til landsins til að vinna í ákveðnum verkefnum og fara í sóttkví B,“ sagði Víðir á fundinum. Sóttkví B felur í sér að fólk fari í sóttkví saman en geti samt sem áður unnið að ákveðnum verkefnum sem það kemur hingað til lands til að sinna.