Innlent

Boðar nýja viðbyggingu við Þjóðleikhúsið

Andri Eysteinsson skrifar
Lilja hefur óskað eftir endurskoðun á áformum um viðbyggingu við Þjóðleikhúsið frá 2006.
Lilja hefur óskað eftir endurskoðun á áformum um viðbyggingu við Þjóðleikhúsið frá 2006. Vísir/Vilhelm

Mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, hefur óskað eftir því að endurskoðun fari fram á áætlunum sem unnar voru um endurbætur, breytingar og viðbyggingu við Þjóðleikhúsið árið 2006.

Í grein sinni sem birtist í Morgunblaðinu í dag gerir Lilja Þjóðleikhúsið að umfjöllunarefni sínu en í ár eru 70 ár liðin frá því að Þjóðleikhúsið var vígt. Húsið var formlega vígt Sumardaginn fyrsta 20. apríl 1950.

Lilja segir þjóðleikhúsbygginguna hafa breyst og þróast með tímanum. Viðhald byggingarinnar hafi oft verði vanrækt og að endingu hafi verið ráðist í umfangsmiklar endurbætur á níunda áratug síðustu aldar. Endurbyggingu hússins sem hafi verið árið 1990 sé hins vegar ekki lokið og fjöldi þeirra rýma sem nýtt eru til leiksýninga Þjóðleikhússins sé ekki til þess ætlaður. Nefnir Lilja þar þá staðreynd að tveir sýningarsalir séu í gömlu íþróttahúsi og að í gamla kolakjallaranum sé nú lítið svið.

Á sjötíu ára afmæli Þjóðleikhússins hefur Lilja því óskað eftir því að áætlanir frá 2006 verði endurskoðaðar með það að markmiði að móta nýjar tillögur um viðbyggingu við Þjóðleikhúsið til þess að búa listamönnum og gestum bætta aðstöðu til frambúðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×