Lífið

„Stjarna okkar kynslóðar“ fallin frá 34 ára að aldri

Hjalti Freyr Ragnarsson skrifar
Sophie á umslagi plötu sinnar Oil of Every Pearl’s Un-Insides.
Sophie á umslagi plötu sinnar Oil of Every Pearl’s Un-Insides.

Skoska tónlistarkonan og pródúsentinn SOPHIE lést aðfaranótt laugardags, 34 ára að aldri. Samkvæmt yfirlýsingu frá útgefanda hennar Transgressive rann hún og féll eftir að hafa klifrað upp til að virða fyrir sér fulla tunglið. 

AP fréttastofan fékk það staðfest frá talsmanni lögreglu í Aþenu að hún haf fallið fram af svölum í íbúð sem hún dvaldi í þar í bæ.

Sophie, Sophie Xeon fullu nafni, var tilnefnd til Grammy verðlauna fyrir plötu sína Oil of Every Pearl’s Un-Insides sem kom út árið 2018, en auk eigin tónlistar vann hún með fjölda tónlistarfólks á borð við Madonnu, Vince Staples, Let’s Eat Grandma og Charli XCX.

Það sem einkennir helst lýsingar á SOPHIE og tónlist hennar er að hún hafi verið langt á undan sínum samtíma. Tónlistin er framúrstefnuleg en þó mjög poppuð, áferðarrík og gerviefnaleg, árásargjörn en hljómfögur.

Þegar hlustað er á BIPP, smáskífu frá 2013 sem var eitt af fyrstu lögunum sem hún sendi frá sér, þá hljómar það enn þann í dag eins og eitthvað alveg sér á báti, jafnvel þó að hún hafi haft áhrif á ómæli tónlistarfólks síðan hún steig fram á sjónarsviðið.

Hún gaf í kjölfarið út röð smáskífa í svipuðum stíl sem var svo safnað saman undir einn hatt í útgáfunni Product. Tónlistin hljómgerði snjallsímasamtímann hæðnislega og var oft á tíðum beinlínis efniskennd. Eins og tónlistarmaðurinn GRRL komst að orði: „Ímyndið ykkur að sveigja tónlistarpróduksjón svo langt að hún hætti að hljóma eins og hljóðgervlar og byrji að hljóma eins og áþreifanleg efni.“

Í upphafi hélt Sophie sig úr sviðsljósinu. Í október 2017 kom svo út myndbandið við lagið It’s Okay to Cry, sem var fyrsta smáskífan af plötu hennar Oil of Every Pearl’s Un-Insides. Þar birtist Sophie í fyrsta sinn í hljóð og mynd án mikillar bjögunar, og kom út sem trans samtímis. Hún staðfesti það í viðtölum í kjölfarið en tók einnig fram að henni þættu stimplar innilokandi og að tónlist væri hennar tjáningarmáti.

Fyrir áhugsama um tónlist hennar tók Guardian saman tíu lög sem eru að þeirra mati með hennar bestu.

Fjöldi tónlistarfólks minntist Sophie í kjölfar fregna af andláti hennar og meðal annars kallaði tónlistarkonan FKA Twigs hana „stjörnu okkar kynslóðar“.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×