Vaxandi úrkomu er spáð frá og með kvöldinu í kvöld, rigningu eða slyddu og gæti snjóað á fjöllum. Hlýna ætti á morgun og gæti rignt í fjöllum. Þá verður talsverður vindur, 13-18 m/s.
Uppsafnaðri úrkomu er spáð á bilinu 100-200 mm. Talsverður snjór er sums staðar í fjöllum og segir á vef lögreglunnar á Austurlandi að við þessar aðstæður gætu vot snjóflóð eða jafnvel krapaflóð eða skriður fallið þegar líður á.
Fylgst verður með aðstæðum og þær metnar betur á morgun, sunnudag, og verður sérstaklega fylgst með því hvort grípa þurfi til ráðstafana á Seyðisfirði og fleiri stöðum þar sem aurskriður féllu í desember.
Samkvæmt veðurspá á að draga hratt úr úrkomu á aðfaranótt mánudags.