Salóme Jórunn Bernharðsdóttir segir að jarðskjálftavirknin í dag mælist mest við austanvert Fagradalsfjall á svæði sem heitir Meradalir.
„Við höfum ekki séð merki um gosóróa eins og við sáum fyrir helgi og ekkert sem bendir til þess að staðan sé breytt frá því.“
Salóme segir að mjög hafi dregið úr tilkynningum um skjálftavirkni til Veðurstofunnar. Þannig hafi ekki borist neinar tilkynningar um að stærri skjálftarnir í dag hafi fundist á höfuðborgarsvæðinu.
„En vorum með fólk á svæðinu að setja upp tæki og þau fundu fyrir þessu,“ segir Salóme. Ríflega þúsund skjálftar hafa samtals mælst á svæðinu frá því á miðnætti.