„Við höfum fengið aðeins af svoleiðis tilboðum, eins og sumarbústaði, fólk sem á sumarbústaði vill af góðmennsku sinni og manngæsku bjóða þá fram. Þeir sem eru tilbúnir til þess eru auðvitað boðnir velkomnir til þess að hafa samband við okkur hjá Grindavíkurbæ,“ sagði Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Hann hvetur hóteleigendur til þess að hafa samband við bæinn svo hægt sé að bjóða Grindvíkingum hótelherbergi annars staðar á landinu á hagstæðu verði.
„Líka vil ég nefna það að hóteleigendur sem að vilja koma með okkur að þessu verkefni, þeir hafi samband og við reynum að finna út hagstæð verð fyrir alla,“ segir Fannar.
Til tals að aðstoða fólk að komast annað
Grindvíkingar hafa óskað eftir því að stjórnvöld, sveitarfélagið eða ríkið, komi að því að finna húsnæði annars staðar á landinu fyrir íbúa. Fannar segir það hafa komið til tals en því miður eigi þess ekki allir kosts.
„Þetta hefur komið til tals og er eitt af því sem við viljum skoða og koma til móts við íbúa okkar. Það eiga þess ekki allir kosts en sumir hafa leitað uppi hagstæð tilboð á hótelum einhvers staðar fjarri Grindavík og aðrir hafa komið sér fyrir yfir nóttina hjá vinum og ættingjum á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Fannar.
„Við viljum vissulega reyna að finna leiðir til þess að fólkinu okkar líði ekki svona illa,“ segir hann.
Hann segist skilja vel að bæjarbúar finni smá sálarró bara við það að komast í burt yfir helgi.
„Sérstaklega þegar það nær ekki nætursvefni nótt eftir nótt og er haldið kvíða dagana á milli, þá er þetta auðvitað lýjandi og slítandi. Ég skil þetta mjög vel að fólk vilji breyta um umhverfi.“