Fram kemur í tilkynningu frá Vegagerðinni að einstefna verði á veginum frá lokuninni sem verið hefur við bæinn Hraun, Grindavíkurmegin. Tvístefna verði frá vegamótunum við Krýsuvíkurveg í vestur u.þ.b. að Ísólfsskála, sem verði þá nálægt þeim stað þar sem mögulegt verður að leggja bílum ef ætlunin er að skoða gosið í Geldingadal.
Á leiðinni milli Grindavíkur og gosstöðvanna þar sem verður einstefna er fólk beðið að stöðva hvorki né leggja bifreiðum sínum fyrr en eftir að komið er yfir Festarfjall, eða eftir í fyrsta lagi tvo kílómetra frá Hrauni.

„Hámarkshraði verður 50 km á klukkustund. Þungatakmarkanir eru í gildi og miðast við 7t ásþunga. Engar takmarkanir eru ef komið er að austanverðu. Þeir sem aka frá Grindavík og austur um þurfa síðan að aka áfram austur á bakaleiðinni og taka þá Krýsuvíkurveg til að komast til Reykjavíkur,“ segir í tilkynningu Vegagerðarinnar.
Unnið er að gerð skilta en reikna má með að þeirri vinnu ljúki í kvöld. Þá verði leiðin opnuð um leið. Rétt sé að benda á að svæðið við gosstöðvarnar er lokað „og verður væntanlega lokað fram yfir það að þessari vinnu lýkur.“
Tilkynning Vegagerðarinnar um stöðuna á Suðurstrandarvegi og við gosstöðvarnar.