Innlent

Vetrarfæri á vegum um allt land

Sylvía Hall skrifar
Ökumenn þurfa gæta vel að aðstæðum.
Ökumenn þurfa gæta vel að aðstæðum. Vísir/Vilhelm

Kuldi og úrkoma síðustu daga veldur því að víða er hálka á vegum um landið. Ökumenn þurfa því að gæta vel að aðstæðum þar sem hálkublettir og snjóþekja eru á vegum í öllum landshlutum.

Hálkublettir eru á öllum leiðum við Reykjavík og nágrenni og á Suðvesturlandi. Á Reykjanesvegi og Grindarvíkurvegi er hálka eða snjóþekja á flestum leiðum en opnað var fyrir umferð um Suðurstrandarveg að gossvæðinu í Geldingadölum í morgun.

Á Suðurlandi er hálka eða snjóþekja á flestum leiðum og eitthvað um éljagang samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Það sama er uppi á teningnum á Suðausturlandi, en þar sást til hreindýrahjarðar á Breiðamerkursandi og eru vegfarendur því beðnir um að sýna sérstaka aðgát á svæðinu.

Hreindýrahjörð sást einnig við Fagradal, við álverið á Reyðarfirði, við Djúpavog og í Lóni á Austurlandi. Snjóþekja eða hálka er á flestum leiðum þar og þæfingsfæri milli Djúpavogs og Streiti. Ófært er um Fjarðarheiði vegna snjós og unnið er að mokstri.

Á Norðausturlandi er þæfingsfæri á Möðrudalsöræfum og á Tjörnesi og er verið að hreinsa veginn. Ófært er á Hólasandi og á Dettifossvegi. Snjóþekja og éljagangur er víða á Norðurlandi og hefur verið unnið að hreinsum á Öxnadalsheiði í morgun.

Þá er töluvert um lokanir á Vestfjörðum, en lokað er um Trostansfjörð og Dynjandisheiði. Ófært er á Steingrímsfjarðarheiði og lokað á Þröskuldum. Óvissustig vegna snjóflóðahættu er í gildi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×