Í baksturskeppninni kepptu að þessu sinni Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. Bakaðar voru bollakökur með kremi og skrauti en keppendur fengu fullt frelsi til að stjórna útlitinu á bollakökunum.
Ráðherrarnir völdu vægast sagt mjög ólíkan stíl eins og sjá má í meðfylgjandi myndbandi. Katrín hikaði ekkert þegar kom að skreytingunum en Bjarni stressaðist aðeins í byrjun við að velja skreytingarþema enda margir valmöguleikar í boði.
„Einhverra hluta vegna er ég gríðarlega stressaður. Mér finnst eins og ég sé að brenna út á tíma.“
Uppskriftin birtist fyrr í dag hér á Vísi. Í klippunni hér fyrir neðan má sjá lokahlutabaksturskeppninnar og lokaútlitið á bollakökum ráðherranna.
Í þáttunum Blindur bakstur fá keppendur hvorki að vita hvað þau eiga að baka né hvað uppskriftin inniheldur, þau þurfa algjörlega að fylgja leiðbeiningum Evu í blindni. Í lokin eru kökurnar svo skoðaðar og bornar saman við köku Evu Laufeyjar, sem svo fær að velja hvor þáttakandi stóð sig betur í að baka í blindni. Þættirnir eru sýndir á laugardagskvöldum á Stöð 2.