Innlent

Innkaupakerra með verkfærum, hross á brokki og grjótharðir snjóboltar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Verkefni lögreglu voru nokkuð fjölbreytt í gærkvöldi og nótt.
Verkefni lögreglu voru nokkuð fjölbreytt í gærkvöldi og nótt.

Verkefni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu voru fjölbreytt í gærkvöldi og nótt. Var nokkuð um tilkynningar sem leiddu ekki til aðgerða en lögregla sinnti einnig nokkrum öllu alvarlegri útköllum.

Í miðborginni var tilkynnt um konu í annarlegu ástandi með „innkaupakerru fulla af verkfærum“. Eftirgrennslan bar ekki árangur né var hringt aftur. Þá var tilkynnt um „laus hross á brokki“ í Árbæ en Reykjavíkurborg tók við málinu.

Lögregla hafði tvisvar afskipti af ungmennum í gærkvöldi og nótt en í annað málið varðaði snjóboltakast sem endaði með brotinni rúðu í anddyri og hitt ungmenni sem voru til vandræða við veitingastaði í Mosfellsbæ. 

Þar er þó aftur tekið fram að afskipti lögreglu hafi ekki leitt til aðgerða.

Á svæði lögreglunnar í Kópavogi og Breiðholti var óskað eftir aðstoð lögreglu við að vísa manni úr verslun en maðurinn var óvelkominn vegna ítrekaðra þjófnaða. Þá var sömuleiðis óskað aðstoðar á Landspítala þar sem einstaklingur var til vandræða.

Í miðborginni var tilkynnt um brotna rúðu í bifreið við skóla en hvorki náðist í eiganda né er vitað hver var að verki. Þá var maður handtekinn á sama svæði fyrir húsbrot og fannst mögulegt þýfi í fórum hans.

Eitt útkall barst lögreglu vegna líkamsárásar, sem rannsökuð er sem heimilisofbeldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×