Nýja sprungan kallaði ekki ótvírætt á þá aðgerð enda um 200 metra frá tjaldinu en björgunarsveitum virtist sprungan þó geta stækkað í áttina að tjaldinu. Því var það fjarlægt og það var eins gott, því að á miðnætti sama dag myndaðist enn önnur sprunga öllum að óvörum, sem lenti beint undir fyrri staðsetningu tjaldsins.
„Það má eiginlega segja að sprunga númer tvö hafi bjargað tjaldinu frá bráðum dauða,“ segir Guðrún Katrín Jóhannsdóttir, björgunarsveitarkona frá Reykjavík sem stýrði aðgerðum uppi í fjalli þegar sprungan myndaðist.
![](https://www.visir.is/i/BE8DFC3E26104446A6C02753AA7C27F395C143227E668801EC69750105901581_713x0.jpg)
Tjaldið var í línu við kvikuganginn
Miklu tjóni var forðað með því að taka niður tjaldið á þessum tímapunkti og þar dugðu engin vettlingatök, heldur segir Guðrún að líklega hafi Norðurlandamet utanhúss verið slegið við að pakka saman tjaldinu.
Tjaldið er í eigu björgunarsveitarinnar Þorbjarnar og er dýr búnaður, sem Guðrún segir ekki einfalt að endurnýja hratt.
Umrædd þriðja sprunga skapaði ekki hættu á mannskaða enda hafði svæðinu verið lokað fyrr um daginn vegna sprungu númer tvö. Frá því að tjaldið var reist höfðu þó jafnan verið staddir í því björgunarsveitarmenn sem höfðu þar aðstöðu til að athafna sig í ýmsum verkefnum.
Vísindamenn höfðu nefnt það sem sviðsmynd frá upphafi gossins í Geldingadölum að nýjar sprungur gætu myndast í sama kvikugangi í línu við upphaflega gosið. Tjaldið var yfir kvikuganginum en er núna brotið saman í geymslu í Grindavík.