Innlent

Hald lagt á vel á annað hundrað kíló af kanna­bis­efnum

Atli Ísleifsson skrifar
Ræktanir hafa verið stöðvaðar á fjórum stöðum á höfuðborgarsvæðinu á síðustu dögum.
Ræktanir hafa verið stöðvaðar á fjórum stöðum á höfuðborgarsvæðinu á síðustu dögum. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur undanfarið stöðvað kannabisræktanir á fjórum stöðum í umdæminu og lagt hald á mikið magn kannabisefna, eða vel á annað hundrað kíló. Nokkrir hafa verið handteknir og hefur einn verið úrskurðaður í gæsluvarðhald.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni, þar sem tekið er fram að það sé mat lögreglu að í öllum tilvikunum hafi efnin verið ætluð til sölu og dreifingar.

„Um var að ræða umfangsmiklar ræktanir í bæði iðnaðar- og íbúðarhúsnæði, m.a. í sérútbúnu rými, og var búnaðurinn eftir því.

Nokkrir hafa verið handteknir í þessum aðgerðum lögreglunnar og einn úrskurðaður í gæsluvarðhald, en rannsókn málanna miðar vel. Á einum staðnum var enn fremur lagt hald á tæplega eitt kíló af ætluðu amfetamíni,“ segir í tilkynningunni.

Vísir sagði frá því um helgina að karlmaður á þrítugsaldri hafi verið úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald að kröfu lögreglunnar eftir að lögregla kom upp um umfangsmikla þurrkun kannabisefna í iðnaðarhúsnæði í Hafnarfirði á fimmtudag í síðustu viku. Þar fundust tuttugu kíló af kannabisefnum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×