Aníta lýsti ofbeldinu sem hún varð fyrir í þættinum Ofsóknir sem sýndur var á Stöð 2 á mánudagskvöld. Manninum kynntist Aníta þegar hún var ný skilin við barnsföður sinn og var að koma undir sig fótunum að nýju; að ganga í gegnum skilnað, flutt í aðra íbúð með dætur sínar tvær og á sama tíma í fullu starfi á Landspítalanum. Fjárhagsörðugleikar höfðu samhliða þessu gert vart við sig og voru kynni við manninn því kærkomin, enda var hann indæll og kom vel fyrir. Hún gerði honum hins vegar grein fyrir að staðan hjá henni væri þannig að hún væri ekki tilbúin í ástarsamband.
Fór fljótt út í öfgar
„Samskipti okkar voru rosalega yfirborðskennd. Hann kom lítið inn á heimilið og við áttum ekki í kynferðislegu sambandi,” segir Aníta. „Hann fréttir af fjárhagserfiðleikum hjá mér og þetta var meira hann að vekja áhuga minn með því að bjóða mér út að borða, gefa mér gjafir, kaupa á mig föt, kaupa föt á börnin. Þetta var mjög fljótt komið út í mjög miklar öfgar, þar sem hann keypti heilt rúm, keypti síma, og gjafirnar urðu rosalega stórar tiltölulega fljótt.”
Aníta vildi ekki taka við gjöfunum en hann skildi þær ýmist eftir fyrir utan heimili hennar, setti þær inn um póstlúgu eða skildi þær jafn vel eftir í barnavagninum. „Það fór að bera aðeins á rauðum flöggum. Hann varð rosalega ágengur og tilætlunarsamur. Bjó alltaf til ástæðu til þess að þurfa að koma til mín. Hann hætti að hringja á undan sér og fór að berja á dyr á öllum tímum sólarhringsins,” segir hún. Hún reyndi þá að slíta sambandinu.
„Hann hélt áfram að hafa samskipti við mig og fylgdist vel með mér. Hann vissi alltaf nákvæmlega hvar ég var, hvert ég var að fara, hvað ég var að gera. Hann varð reiður ef ég svaraði ekki strax og ef ég svaraði ekki í símann þá sendi hann mörg sms og þurfti alltaf að vita hvar ég væri,” segir Aníta.

„Ég læt hann vita mjög skýrt að við eigum ekki samleið og að þetta sé ekki alveg að ganga upp. Hann reiðist mjög við það og ég segi þá að það sé nóg komið og ég vilji þetta ekki. Loka á öll samskipti, bæði á samfélagsmiðlum og símanúmerið hans þannig að hann nær ekki að hafa samskipti við mig þar. Þar með hélt ég að þessu væri lokið.”
„Fyrsta beina kúgunin”
Það reyndist ekki vera, því hann mætti í vinnuna til Anítu. „Hann finnur þarna eina korterið á deginum þar sem það var lítið af starfsfólki á ganginum. Og þá veður hann inn og króar mig af, neitar að yfirgefa vinnustaðinn fyrr en ég hef opnað fyrir símanúmerið hans og hleypi honum aftur inn á samfélagsmiðla. Hann segir mér það mjög skýrt að svona framkoma af minni hálfu sé ekki í boði. Ég var náttúrlega dauðhrædd, og þarna var hann búinn að stíga yfir ákveðna línu - að vaða inn á vinnustað minn og þvinga mig til þess að opna fyrir samskipti aftur. Það var kannski upplifun mín eftir á að þarna var hann kominn með stjórnina og þetta var fyrsta beina kúgunin sem ég fann virkilega fyrir. Þarna vissi ég að hann var kominn yfir þau mörk sem teldust eðlileg og að það væri í raun og veru ekkert eðlilegt við þessi samskipti.”
Hótanirnar jukust stöðugt og áfram hélt maðurinn að reyna að kaupa sér ást Anítu með gjöfum - og ætlaði sér að verða ómissandi í lífi hennar.
„Ég reyni upp frá þessu að finna allar mögulegar leiðir til að gera honum skýrt að þessi samskipti gengu ekki. Ég reyndi að vera kurteis og reyndi að fara mjúkt í þetta og reyndi líka að vera mjög ákveðin en það virkaði ekki. Það var engin ástæða nógu góð til þess að hann hætti að hafa samskipti við mig,” lýsir Aníta.
„Hann var með alls konar ranghugmyndir og ef hann missti stjórn á skapi sínu, þó það hafi bara verið í síma eða bara þegar hann kom við heima að þá var hann rosalega fljótur að réttlæta það með einhverjum gjöfum, nýjum fötum, skóm. Það var rosalega erfitt að neita og að afþakka þetta. Ég reyndi þarna eina helgina að bara slíta þessu fyrir alvöru en þó án þess að ég þori að loka á hann eins og ég hafði gert áður, þannig að hann hefði ekki ástæðu til þess að leita mig uppi.”
Ruddist inn á heimilið
Aníta gerði manninum það áfram skýrt að hún vildi ekki samband með honum. „Ég var búin að halda mér frá honum heila helgi og ætlaði ekki að gefa mig. Á sunnudeginum hafði ég ekkert svarað honum en hann krafðist þess að ég færi með honum út að borða, en ég sagði nei, og hætti að svara símanum þegar hann sagðist ætla að koma að sækja mig. Innan nokkurra mínútna var hann kominn fyrir utan dyrnar hjá mér og ryðst inn, sannfærður um að það sé annar karlmaður á heimilinu.”
Þrátt fyrir að maðurinn hafi leitað af sér allan grun stigmagnaðist reiði hans. „Reiðin verður svo mikil og hann verður svo ógnandi. Stelpurnar mínar tvær voru heima og ég varð bara virkilega hrædd við hann, bað hann um að fara út - og bara grátbað hann um það,” segir Aníta.

„Og þarna varð hann reiðari og reiðari og varð ógnandi. Hann kýldi mig svona þéttingsfast í öxlina og ég hélt þarna á ársgömlu barninu mínu. Hann náði að króa mig af inni á baðherbergi, sem er flísalagt, og fyrir utan stóð eldri dóttir mín og öskraði af alefli, öllum sálarkrafti. Ég reyndi að taka upp símann til að hringja eftir hjálp en hann stóð þarna yfir mér og reyndi að taka mig kverkataki. Ég varð bara virkilega hrædd. Barnið mitt, sem ég hélt á í fanginu, öskraði og grét en hans viðbrögð við því að ég væri að hringja var að taka símann af mér. Hann fór ekki út af baðherberginu fyrr en ég missti takið á dóttur minni og hún datt á flísarnar.”
Barninu varð ekki meint af hann maðurinn vék þá og hleypti mæðgunum út af baðherberginu.
„Mín fyrstu viðbrögð voru að klæða þær í skó, taka bíllyklana og fara út. Eina sem ég hugsaði var að koma okkur í skjól. Ég hafði ekki síma og það var enginn nálægt. Það var enginn til að heyra öskrin, engir nágrannar eða neitt.”
Maðurinn lét Anítu aftur fá símann en hló að henni á meðan hún var að reyna að koma sér út. Hún hljóp út í bíl, en þar lét hann ekki staðar numið og settist upp í sinn bíl og elti þær. Aníta hringdi þá á lögreglu sem mætti henni á Hafnarfjarðarvegi. Maðurinn keyrði þá í burtu. Hún fyllti út skýrslu á lögreglustöðinni og hún var beðin um að láta vita samstundis ef maðurinn setti sig í samband við hana aftur. Sem gerðist meðal annars tæpri viku síðar þegar maðurinn elti Anítu inn á líkamsræktarstöð í Hafnarfirði og hótaði henni.
Komin á góðan stað í dag
Aníta fékk nálgunarbann á hendur manninum, öryggishnapp og er með símanúmerið sitt skráð á forgangslista hjá lögreglu. Dóttir hennar upplifði mikla hræðslu en fór í sérhæfða listmeðferð og er að sögn Anítu á góðum stað í dag.
„Mér líður vel í dag. Við erum flutt úr þessu húsnæði þannig að við erum ekki lengur á jarðhæð. Ég er komin aftur í nám og sé fram á að reyna að nýta mér þessa reynslu til gagns. Ég hef skilning gagnvart öðrum sem lenda í þessum aðstæðum. Það er erfitt að lesa í einstaklinga sem verða svona ágengir. Það sést ekkert utan á fólk og það getur hver sem er lent í þessu. Þetta var rosalega erfitt og erfitt að komast upp úr þessu andlega, þannig að maður upplifi sig öruggan á sínu heimili og öruggan að fara bara út í búð. Samviska mín var alltaf mest að börnin mín hafi þurft að þola upp á þetta. Ég reyndi sjálf og vildi ekki að hann myndi taka stjórnina af mínu lífi með þessari háttsemi,” segir Aníta.
Ítarleg umfjöllun um Anítu og þær ofsóknir sem hún varð fyrir var til umfjöllunar í þættinum Ofsóknir á Stöð 2. Stiklu úr þættinum má sjá hér fyrir neðan.