Innlent

Mældu ökumann á 190 km/klst og veittu eftirför

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Bifreiðin fannst að lokum og ökumaðurinn skömmu seinna.
Bifreiðin fannst að lokum og ökumaðurinn skömmu seinna. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á Suðurnesjum hóf eftirför í gær þegar bifreið mældist á 190 km/klst, þar sem henni var ekið í átt að Hafnarfirði. Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var gert viðvart en í Hafnarfirði náði ökumaður að stinga lögreglu af um stund.

Mannlaus bifreiðin fannst nokkru síðar í póstnúmeri 220 og ökumaður á gangi skammt frá.

Viðkomandi var handtekinn og færður á lögreglustöð en þar kom í ljós að hann var undir áhrifum fíkniefna. Samkvæmt tilkynningu frá lögreglu var viðbúnaður mikill vegna málsins, enda um stórhættulegt tilvik að ræða.

Lögregla var einnig kölluð til vegna flugslyss á athafnarsvæði Fisfélagsins við Hólmsheiðarveg, líkt og Vísir greindi frá í gærkvöldi. 

„Atvikið átti sér stað er fisvél fór í loftið, þegar komið var í 300 fet stoppaði mótor vélarinnar. Flugmaður náði ekki að koma vélinni í gang aftur og varð því að nauðlenda henni. Í lendingu lenti vélin á steyptum kanti, valt og endaði á toppnum. Flugmaður kvartaði undan verki í fæti en farþega sakaði ekki,“ segir í tilkynningu frá lögreglu.

Þá var tilkynnt um sölu fíkniefna úr bifreið í póstnúmeri 111. Tveir voru handteknir er þeir voru að ganga frá bifreiðinni en við leit í henni fundust ætluð fíkniefni til sölu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×