Einhver væta hefur verið á suðvesturhorninu í dag og varð til þess að viðbúnaður var færður af hættustigi niður á óvissustig á Reykjanesi.
Úrkoman hefur þó verið minni í kringum höfuðborgarsvæðið og annars staðar þar sem hættustig er í gildi og er jarðvegur enn víða þurr.
Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 að þrátt fyrir smá vætu væri útlitið ekki nógu gott á næstunni þegar kemur að hættu á gróðureldum.
„Veðrið breytist strax aftur eftir helgina. Þá verða norðaustlægar áttir með tilheyrandi góðviðri, björtum og þurrum dögum á þessu svæði,“ sagði Rögnvaldur.
Því megi reikna með því að staðan verði óbreytt á næstunni og jafnvel muni aftur þurfa að hækka viðbúnað upp á hættustig á Reykjanesi.
Hefur þeim skilaboðum verið beint til fólks að kveikja alls ekki opinn eld úti í náttúrunni.
„Það er á svæðum þar sem er hætta á gróðureldum. Það er kannski í lagi að grilla á svölunum heima en ég myndi ekki gera það út í sumarbústað,“ sagði Rögnvaldur.
Hann á ekki von á því að hættusvæðið eigi eftir að stækka enn frekar þar sem úrkomu sé spáð næstu daga í öðrum landshlutum.