Hulda Kristín Kolbrúnardóttir, meðlimur í Gagnamagninu segir hópinn himinlifandi með árangurinn Eurovision í gær. Líkt og flestum er kunnugt endaði Ísland í fjórða sæti í keppninni sem er næst besti árangur Íslands í keppninni frá upphafi.
„Þetta var sjúklega spennuþrungið kvöld. Ég get ekki lýst tilfinningunum sem voru allar fram og til baka, hægri, vinstri og úti um allt.“
![](https://www.visir.is/i/51577D6B049DC96C0B0B0AEFD8098D27F59620EBEEE667C126E1525781C3D26C_713x0.jpg)
Gaman að sjá Ísland í fyrsta sæti um stundarsakir
Þegar stig Íslands úr símakosningunni voru tilkynnt færðist íslenska liðið í efsta sæti um stundarsakir. Hulda segir að það hafi verið ótrúleg tilfinning að sjá íslenska fánann á toppnum.
„Við vorum ekki að búast við því að vera í efstu fimm sætunum. Það var því mjög gaman að vera í fyrsta sætinu í svolítinn tíma,“ sagði Hulda.
Gagnamagnið var viðbúið öllu.
„Maður vissi ekki neitt. Við vorum komin niður í sjöunda sæti í veðbönkum og flökkuðum fram og til baka þar. Við fengum svo mörg skilaboð eftir fimmtudaginn og vissum ekkert hvað var að gerast og vorum því viðbúin öllu.“
Líkt og áður hefur komið fram stigu Daði og Gagnamagnið ekki á svið í gærkvöldi þar sem Jóhann Sigurður, meðlimur Gagnamagnsins, greindist smitaður með Covid19 í vikunni. Upptaka frá annarri æfingu hópsins var notuð í gær líkt og á fimmtudaginn.
![](https://www.visir.is/i/4F0A5182E25DFE9C94511142515CD984B9B4658D184A2C183CA5EC70C3945638_713x0.jpg)
Daði og Gagnamagnið æfðu mögulegan sigur hópsins þar sem undirbúa þurfti feril sem færi í gagn ef allt færi á besta veg, vegna fjarlægðar hans frá stóra sviðinu. Þar að auki þótti atriðið sigurstranglegt að sögn Huldu.
Æfði þakkarræðu
„Það var fjölskyldurennsli í gær þar sem að skipuleggjandi hringdi í mig og sagði mér að koma upp núna þar sem sett var upp sú atburðarás sem taka ætti við ef við myndum vinna því að þau voru viðbúin því að það gæti gerst.“
„Það var æft já fyrr um daginn. Þá hljóp ég upp og fór með þakkarræðu, mjög fyndið dæmi,“ sagði Hulda.
Hvernig var þakkarræðan þín?
„Hún var: Stay cool, stay safe og thank you very much,“ segir Hulda og hlær.
„Þetta var ótrúlega grillað, ég lá þarna í hláturskasti allan tímann.“
Daði og Gagnamagnið keppa líklega ekki aftur
Hulda segir hópinn gríðarlega ánægðan með árangurinn.
„Ekkert smá sátt. Við hefðum ekki getað beðið um betri árangur. Það hefði auðvitað verið gaman að vinna en þetta er sjúklega gott og við erum svo ánægð.“
Hún segir að Daði og Gagnamagnið muni líklega ekki keppa aftur í Eurovision. Sjálf gæti hún hugsað sér að taka þátt í keppninni sem söngkona, enda enn draumur að fá að keppa á sviðinu.
Hulda segir ómögulegt að segja til um hvort atriðinu hefði gengið betur hefðu þau flutt það á stóra sviðinu.
„Sko bæði er engin leið að vita það en ég held að það hefði hjálpað okkur. Þetta var samt upptaka sem eldist vel.“
Hún segist mjög spennt að komast heim til Íslands og hvíla sig.
„Við bíðum eftir niðurstöðum úr Covid prófi og svo ætla ég að knúsa hundinn minn og sofa“