Króksarar voru ekki lengi að brjóta ísinn, en strax á sjöundu mínútu var staðan orðin 1-0. Bryndís Rut Haraldsdóttir átti þá flotta sendingu inn á Murielle Tiernan sem stakk varnarmenn Fylkis af og kláraði færi vel framhjá Tinnu Brá í marki Fylkiskvenna.
Tuttugu mínútum síðar voru heimakonur búnar að tvöfalda forystu sína þegar að Jacqueline Altschuld tók hornspyrnu sem Tinna Brá sló frá marki. Boltinn barst þá fyrir Laura-Roxana Rus, og hnitmiðað skot hennar fann netmöskvana.
Ekki voru fleiri mörk skoruð í fyrri hálfleik og staðan því 2-0 þegar gengið var til búningsherbergja.
Fylkisstúlkur sóttu heldur meira í seinni hálfleik, enda þurftu þær á mörkum að halda. Það skilaði sér loksins á 67.mínútu þegar að Helena Ósk Hálfdánardóttir minnkaði muninn í 2-1.
Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir tóks Fylki ekki að jafna metin og niðurstaðan því mikilvægur 2-1 sigur heimakvenna í botnbaráttu Pepsi Max deildarinnar.
Sigurinn lyftir Tindastól af botninum og upp í áttunda sæti deildarinnar með ellefu stig. Fylkiskonur sitja hinsvegar eftir á botninum með níu stig.

Pepsi Max deild kvenna er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.