Ný og afdráttarlaus skýrsla Sameinuðu þjóðanna var kynnt í gær og segir einn höfunda tímann til þess að grípa til aðgerða vegna loftslagsbreytinga að renna okkur úr greipum. Skýrslan sýni þörfina á tafarlausum aðgerðum.
Fréttastofa leit við í Nauthólsvík í dag og ræddi við fólk um hlýnun jarðar.
Mesta vá sem komið hefur upp hjá mannkyninu
Hefur þú áhyggjur af loftslagshlýnuninni?
„Já það gera örugglega allir. Bráðnun jökla, jöklarnir hopa. Maður sér alveg muninn. Þó að ég sé bara rúmlega sextug þá sé ég muninn,“ sagði Kristín Guðmundsdóttir.
„Já að sjálfsögðu geri ég það. Þetta er mesta vá sem hefur komið upp hjá mannkyninu og hún er af mannavöldum segja vísindamenn og ég trúi þeim,“ sagði Ólafur Hinrik Ragnarsson.
Finnst þér stjórnvöld gera nóg til þess að bregðast við þessari vá?
„Ég veit ekki hvort ég hafi einhverja skoðun á því,“ sagði Kristín.
„Nei en ég gæti líka staðið mig betur líka, svona yfir höfuð,“ sagði Sigurður Páll Pálsson.
„Ja þau mega gera betur, töluvert meira,“ sagði Ólafur Hinrik.
Hugsar til barnabarnabarnabarnanna
Hefur þú áhyggjur fyrir komandi kynslóðir?
„Ég verð náttúrulega farin þá en aumingja barnabarnabarnabörnin mín. Þau eiga ekki góðan tíma ef þetta heldur svona áfram,“ sagði Kristín.
Leggur þú eitthvað að mörkum?
„Ekki af viti. Það er líka bara svo lítið sem ég get gert. Bara dropi í hafið,“ sagði Jón Rafn Hjálmarsson.
„Já ég flokka allan úrgang, hjóla eins mikið og ég get og nota bílinn eins lítið og ég get,“ sagði Ólafur Hinrik.
„Þetta snýst allt um peninga. Það er ekkert verið að pæla í því að redda sjónum eða jöklum. Það er bara money, money, money,“ sagði Jón Rafn.