Von er á pólsku flugsveitinni með fjórar F16-orrustuþotur til landsins í dag, að því er segir í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni. Hún hefur aðsetur á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Viðbúnaður er vegna sóttvarna og er unnið að þeim í samvinnu við embætti landlæknis og fleiri sem koma að sóttvörnum á Íslandi. Alls koma 140 liðsmenn pólska flughersins til landsins vegna gæslunnar.
Gert er ráð fyrir aðflugsæfingum að varaflugvellinum á Akureyri og Egilsstöðum dagana 23. ágúst til 3. september. Loftrýmisgæslan sjálf stendur yfir fram í lok september.
Fyrirkomulag loftrýmisgæslunnar er sagt verða með sama fyrirkomulagi og fyrri ár og í samræmi við loftrýmisgæsluáætlun NATO fyrir Ísland. Sextíu ár eru liðin frá því að gæslan hófst í ár.