Það er mikil tilhlökkun hjá hestamönnum og áhugafólki um íslenska hestinn fyrir landsmótinu á Hellu, sem fer fram dagana 4. til 10. júlí sumarið 2022. Nú þegar er hafin miðasala í forsölu á mótið.
Ágúst Sigurðsson, sveitarstjóri Rangárþings ytra, segir allan undirbúning fyrir mótið á Hellu ganga mjög vel.
„Já, við heimafólk erum auðvitað spennt fyrir því og styðjum það með ráð og dáð að það verði og heppnist vel. Það stefnir í risa mót og mikil stemming er fyrir því. Menn reikna með því að fá hérna tíu þúsund manns í það minnsta í júlímánuði á næsta ári í heimsókn. Það verður haldið hér glæsilegt mót á ég von á.“

Ágúst segir mjög mikilvægt fyrir sveitarfélagið og fyrirtæki á svæðinu að fá landsmótið á Hellu.
„Jú, jú, það er það og síðan er það náttúrlega bara þannig að talandi um hestamennsku að þá er mekka íslenskra hestamennsku hér á þessu svæði. Hér eru flestir atvinnumennirnir, stærstu ræktunarbúin og mér liggur við að segja bestu hestarnir, ég held ég geti bara haldið því fram og mikið að gerast, þannig að það er eðlilegt að menn séu spenntir fyrir landsmóti hér á þessu svæði,“ segir Ágúst.
Miðasala er nú þegar hafin á landsmótið
