Innlent

Meðferðin til háborinnar skammar en leggur ekki mat á hvort hætta þurfi blóðtökunni

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Vísir/Vilhelm

Kristján Þór Júlíusson landbúnaðarráðherra segir meðferð á íslenskum hryssum við blóðtöku vera til háborinnar skammar. Hann vill þó ekki leggja mat á það hvort hætta þurfi þessari starfsemi.

„Matvælastofnun á að hafa yfirlit fyrir þetta og ég vænti þess að tekið verði á þessum háttum af fullri alvöru og sem skjótast,“ segir Kristján Þór.

Heimildarmynd sem birt var í gær um blóðtöku mera hér á landi hefur vakið gríðarlega athygli, hér á landi og víða um heim, en í myndinni sjást bændur beita hryssurnar miklu og grófu ofbeldi.

„Þetta er þeim til háborinnar skammar sem að þessu koma með þessum hætti sem myndin dregur fram,“ segir Kristján Þór.

„Ég er ekki á þeim stað að við séum í stakk búin til að ákveða hvort við eigum að hætta þessu hér og nú. En það er augljóst af þeim upplýsingum sem við höfum fengið að það eru ákveðnir vankantar á þessu.“

Efast um að slæm meðferð sé viðhöfð alls staðar

Fréttastofa náði tali af ríkisstjórninni að loknum fundi þeirra í morgun. Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra og dýralæknir, segir að myndin hafi vakið óhug hjá sér en efast um að þessi slæma meðferð sé viðhöfð alls staðar.

„Ég held að þetta geti ekki verið svona, af því litla sem ég þekki til þessa,“ segir hann, en vill heldur ekki meta það hvort láta þurfi af starfseminni.

„Þetta getur allavega ekki átt sér stað með þessum hætti og ég veit að Matvælastofnun hefur verið að auka eftirlit sitt á síðustu árum. Ég veit líka til þess, þar sem þetta er gert með öðrum hætti, að þar eru þessi vinnubrögð allt önnur.“

Aðspurð bendir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á landbúnaðarráðuneytið í þessum málum.

„Ég held að þetta sé eitthvað sem þurfi að taka til skoðunar í landbúnaðarráðuneytinu. Það skiptir miklu máli að við tryggjum velferð dýra og þetta vekur sannarlega upp spurningar um hana.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×