„Það er búið að skjálfa dálítið vel í nótt,“ segir vakthafandi náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands og bætir við að ekkert lát hafi verið á jarðskjálftavirkni. Skjálftarnir hafi þó verið heldur minni en í gærdag. Höfuðborgarbúar fundu vel fyrir jarðskjálfta 4,5 að stærð sem mældist rétt austan við Geldingadali um miðnætti í gær.

Staðan er enn óljós en engin merki eru um gosóróa enn sem komið er. Sérfræðingar hjá Veðurstofu fylgjast grannt með stöðu mála og samkvæmt upplýsingu frá náttúruvársérfræðingi er fylgst með þróun mála allan sólarhringinn.
Talið hefur verið líklegast að ef annað gos verði komi kvikan upp á sama stað og gaus stóran hluta ársins. Ekki megi þó útiloka að hún komi upp annars staðar og hefur fólk verið varað við því að vera á ferð um svæðið. Gos gæti þess vegna hafist nánast fyrirvaralaust.
Fréttin hefur verið uppfærð en skjálftinn hefur nú verið yfirfarinn af Veðurstofunni. Í upphafi var talið að stærð skjálftans hafi verið 4,5 en samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu liggur nú fyrir að stærð hans hafi verið 4,2.