„Fyrir nokkrum árum svaraði ég auglýsingu á netinu þar sem í boði var kynlíf gegn greiðslu. Sú hegðun er ófyrirgefanleg en ég taldi mér ranglega trú um að þau samskipti væru grafin og gleymd og þau hafa ekki haft áhrif á störf mín fyrir SÁÁ. Ljóst er hins vegar að umræða um þetta mál er einungis til þess fallin að varpa rýrð á SÁÁ ef ég sit þar áfram sem formaður.
Ég iðrast að hafa farið þessa leið og að hafa valdið fjölskyldu minni sársauka vegna hegðunar minnar. Bið ég alla þá sem málið varðar afsökunar á framferði mínu.“
Anna Hildur Guðmundsson, stjórnarmaður SÁÁ, segir framkvæmdastjórn samtakanna fyrst hafa fengið afspurn af málinu á föstudag. Á fundi með Einari í dag hafi það fengið staðfest. Í kjölfarið hafi hann tilkynnt afsögn sína. Meira hafi stjórnin ekki að segja að svo stöddu og muni boða til fundar aðalstjórnar sem fyrst.
„Starfsemi samtakanna heldur áfram og er óbreytt,“ segir Anna Hildur í samtali við Vísi, en hún hefur tekið að sér hlutverk talsmanns stjórnar í veikindafjarveru varaformannsins Sigurðar Friðrikssonar.
Hafi keypt vændi af konu í neyslu
Í frétt Stundarinnar um málið segir að Einar hafi á árunum 2016 til 2018 keypt vændiþjónustu af konu sem var á þeim tíma virkur fíkniefnaneytandi. Hún sé nú skjólstæðingur SÁÁ. Stundin segir umfjöllun sína studda gögnum sem sýna meðal annars samskipti Einars og konunnar á Facebook.
Þar segir jafnframt að Stundin hafi heimildir fyrir því að embætti landlæknis hafi verið upplýst um málið árið 2020 og að stjórnarmaður SÁÁ hafi sömuleiðis vitað af vændiskaupum Einars.
Einar var kjörinn formaður SÁÁ í júní 2020. Þá hafði hann betur í kosningum gegn Þórarni Tyrfingssyni sem var formaður samtakanna í rúma tvo áratugi.
Erfiðir tímar fyrir samtökin
Á dögunum kröfðu Sjúkratryggingar Íslands SÁÁ um endurgreiðslu 175 milljóna krjóna vegna tilhæfulausra reikninga. Svo virðist sem SÁÁ hafi reynt að beita Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) stórfelldum blekkingum og undanbrögðum vegna tilhæfulausa reikninga sem samtökin sendu SÍ.
Í yfirlýsingu sem send var fjölmiðlum 18. janúar síðastliðinn sagðist framkvæmdastjórn félagsins vera slegin.
„Í þeim krefjandi aðstæðum sem heimsfaraldri fylgdi, með tilheyrandi samkomutakmörkunum, var leitað allra leiða til að halda uppi lögbundinni og nauðsynlegri þjónustu við þennan viðkvæma hóp. Það eru því mikil vonbrigði að eftirlitsdeild SÍ skuli hafa komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið staðið rétt að málum og kært SÁÁ til embættis héraðssaksóknara,“ segir í yfirlýsingunni.
Ekki hefur náðst í Einar Hermannsson við vinnslu fréttarinnar.