Við förum yfir áætlun stjórnvalda í kvöldfréttum Stöðvar 2 og ræðum við fólk í veitingabransanum og menningargeiranum, sem aðgerðirnar hafa bitnað hvað mest á.
Þá fjöllum við um verðbólguna sem er nú í hæstu hæðum. Hagfræðingur hjá Íslandsbanka segir að húsnæðislán gætu hækkað um mörg hundruð þúsund krónur og varar við því að staðan geti enn versnað.
Við ræðum einnig við Sólveigu Önnu Jónsdóttur fyrrverandi formann Eflingar en hún býður sig nú fram á ný og er sigurviss. Þá snúum við okkur að fræðunum en viðtengingarháttur er á hröðu undanhaldi í íslensku og gæti hreinlega dáið út á þessari öld, samkvæmt nýrri rannsókn.
Þetta og margt fleira í kvöldfréttum Stöðvar 2 á slaginu hálf sjö.