Innlent

Gaf lög­reglu upp rangt nafn og reyndist próf­laus

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Lögreglan hafði í talsverðu að snúast er varðaði fíkniefni.
Lögreglan hafði í talsverðu að snúast er varðaði fíkniefni. Vísir/Vilhelm

Hæst bar í störfum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu  í nótt að lögregla stöðvaði ökumann á öðrum tímanum sem grunaður er um akstur undir áhrifum fíkniefna, ítrekaðan akstur sviptur ökuréttindum og að hafa gefið lögreglu rangar upplýsingar þegar hann var spurður um skilríki og nafn.

Annar var stöðvaður á fimmta tímanum í nótt grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Þá var gerð húsleit laust fyrir klukkan sex í gærkvöldi á heimili manns í Hlíðunum og hald lagt á ætluð fíkniefni. 

Þá voru höfð afskipti af ungum karlmanni í Hlíðunum á tólfta tímanum í gærkvöldi vegna neyslu og vörslu fíkniefna. Lagt var hald á fíkniefnin og vettvangsskýrsla rituð. 

Tilkynnt var um rúðubrot í Hlíðunum rétt fyrir ellefu í gærkvöld en þar hafði maður brotið rúðu á útihurð gistiheimilis og farið inn. Sá var handtekinn og vistaður fyrir rannsókn málsins í fangageymslu lögreglu.

Umferðaróhapp varð í Kópavogi rétt fyrir klukkan sex í gærkvöldi en engin slys urðu á fólki. Ökumaður missti stjórn á bílnum sínum í hálku og ók í veg fyrir annan bíl sem valt á hliðina. Báðar bifreiðar voru óökufærar eftir slysið en þær fjarlægðar.

Kona slasaðist á sjöunda tímanum þegar hún féll af hesti í Mosfellsbæ og öklabrotnaði líklega. Þá var tilkynnt um innbrot í geymslur í Mosfellsbæ á áttunda tímanum. Talið er að engu hafi verið stolið en eignarspjöll urðu þó. 

Þá var tilkynnt um innbrot í aðstöðu Kayakfélaganna í Grafarvogi þar sem skemmdir urðu á hurð og verðmætum stolið.

Ungur karlmaður var handtekinn laust fyrir klukkan tólf í Árbæ en sá var í annarlegu ástandi við handtökuna. Hann er grunaður um hótanir og fleiri brot og var vistaður í fangageymslu lögreglu í nótt. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×