Úrslitakvöldið verður um næstu helgi og magnast spennan. Betsson hefur undanfarin ár sett upp veðmál sem tengist keppninni og árið í ár er engin undantekning þar á. Eftir því sem Vísir kemst næst stærir Betsson sig af því að hafa jafnan „rétt“ fyrir sér; það er að hafa sett upp stuðla sem svo kemur á daginn að eru nálægt lagi.
Stuðullinn sem settur er á sigur Reykjavíkurdætra er 1,75. Það þýðir einfaldlega það að ef einhver er staðfastur í þeirri trú sinni að þannig fari leikar, og hann leggur þúsund krónur á að svo fari, þá fær hann 1,750 krónur til baka.

Samkvæmt stuðlum sem Betsson hefur gefið út og sjá má hér ofar er Katla sú sem helst nær að velgja hinum rappandi Reykjavíkurdætrum undir uggum en hún er með stuðulinn 2.60.
Ólíklegast telst að Amarosis, sem var aukalagið inn á úrslitakvöldið, hrósi sigri. Stuðullinn á lag systkinanna sem þann dúett skipa er með 9 og fari svo að þau nái að heilla þjóðina algerlega uppúr skónum og standi uppi sem sigurvegararar fær sá sem leggur þúsund krónur á þau 9 þúsund krónur til baka.