Anna Katrín sagði frá reynslu sinni af Gísla í síðasta Kompásþætti. Hún hafði farið til hans fyrir nokkrum mánuðum ásamt vinkonum sínum til að fá persónulegan lestur upp úr stjörnukortunum sínum. Á heimasíðu sinni, Gáruáhrif.is, auglýsti hann sig menntaðan í faginu og bauð þeim rúmlega þriggja stunda kvöldstund fyrir nokkra tugi þúsunda. Gáruáhrif er fyrirtæki í hans eigu sem hann notar undir starfsemi sína sem stjörnuspekingur. Það sem átti að verða skemmtileg stund breyttist fljótt í martröð. Hann var mjög ágengur og agressívur við bæði Önnu Katrínu og vinkonu hennar.
Skilur Hitler og segir einhverfu áunna
Hann sagðist meðal annars skilja Hitler og nasistana, sakaði vinkonurnar um að hafa skaðað börnin sín svo mikið að þau væru orðin einhverf og réðst persónulega á eina þeirra svo gróflega að hún brast í grát. Í rúma þrjá klukkutíma fór spekingurinn um víðan völl og deildi meðal annars með þeim reynslu sinni af ofskynjunarefnum sem hann hafði prófað á Tælandi fyrir nokkrum árum. Samkoman var tekin upp á myndband sem hann lét þær fá eftir á, ekki ósvipað og miðlar gera eftir tíma með þeim.
Fleiri konur gagnrýna Gísla
Nú hafa fleiri konur stigið fram á samfélagsmiðlum eftir að Kompásþátturinn fór í loftið og lýst reynslu sinni af Gísla, sem starfar líka sem jógakennari. Ein þeirra er Anna Birna Björnsdóttir, vinkona Önnu Katrínar, sem var með vinkonuhópnum umrætt kvöld þegar Gísli lét gamminn geysa. Anna Birna skrifar í pistli á Facebook, sem hún hefur veitt fréttastofu leyfi fyrir að vitna í, að þær hafi setið með Gísla í næstum því fjórar klukkustundir þar sem þær bjuggust við skemmtilegum stjörnukortalestri.
„En ef ég ætti að taka þetta saman þá talaði hann 80% stundarinnar um sjálfan sig og nýtti mikið af þeim tíma í að tala sig upp, hversu máttugur hann væri, hvað hann vissi mikið og hvers vegna við ættum nú að trúa og treysta því sem hann hafði að segja. 20% fór svo í að ræða stjörnukortin, með mjög sérkennilegum athugasemdum og hreint og beint árásum einsog sjá má á videoinu. Ég velti mikið fyrir mér sakamálum og hef séð svona talsmáta hjá svona cult leaderum. Um leið og þið sjáið að einn (eða fleiri) aðilar eru settir á stall/setja sjálfa sig á stall í andlega heiminum þá er mikilvægt að setja stórt spurningamerki við það,“ skrifar Anna Birna.
Segir að „algjörlega fokking lost“ verði grafskriftin hennar
„Gísli segir mér meðal annars að ég ætti bara ekkert að vera allsgáð. Ég ætti að nýta mér áfengi og aðra vímugjafa til þess að líða betur. Þetta er mjög hættulegt að segja við barn alkahólista sem einnig elst upp með alkahólista. Hann talar um að ég sé týnd og að ég þurfi að horfast í augu við það að legsteinninn minn mun segja "Anna Birna, algjörlega fokkíng lost" ef ég næ ekki að vinna nógu vel í sjálfri mér.“
Anna Birna segir að Gísli hafi fóðrað sig á andlegri orku vinkvennanna. „Við töluðum flestar um í óeðlilega langan tíma á eftir, að við værum enn að ná okkur eftir þetta. Vorum allar uppgefnar og orkulitlar. Það er ekki eðlilegt eftir að fara í tíma sem á að heila þig,“ skrifar hún.
Hefur ekki viljað veita viðtal
Gísli vildi ekki veita viðtal þegar eftir því var leitað og hefur svo ekki svarað skilaboðum. Facebook-síðu Gáruáhrifa hefur verið lokað og sömuleiðis vefsíðunni, Gáruáhrif.is.