Innblásturinn er fastur liður hjá Lífinu á Vísi þar sem rætt er við ólíkt fólk um hvað veitir því innblástur í tilverunni og hvaða ráðum þau luma á varðandi andlega heilsu.
Hver ert þú í þínum eigin orðum?
Heimspekimenntaður pælari, stemningskona og göngugarpur úr Vesturbænum sem hefur brennandi áhuga á umhverfinu, bæði því náttúrulega sem og því skapaða. Haldin ólæknandi ferðaþrá og forvitin um fólk og staði, heim og geim.
Hvað veitir þér innblástur?
Náttúran veitir mér ótæmandi innblástur og ég hef undanfarin ár eytt mestum tíma mínum úti í villtri náttúru.
Öll fegurðin og hömluleysið og skipulagið og kaosinn - ég fæ ekki nóg! En svo er allt dásamlega fólkið í kringum mig líka mikill innblástur.
Hvað er þitt besta ráð til að næra andlega heilsu?
Að fara út. Horfa í kringum sig og vera úti og hreyfa sig ef mögulegt er.
Gleyma daglegu amstri og aftengjast símanum og öðru áreiti þó það sé bara í dálitla stund!
Hvernig er hefðbundinn dagur í þínu lífi?
Veit ekki alveg hvernig ég á að svara þessu. Síðustu sex til sjö ár hef ég verið á miklu flakki út af vinnu, skóla og ferðalögum og hef ekki verið nógu lengi á neinum stað til að koma mér upp hefðum og rútínu!
Eini öruggi fasti liður dagsins er morgunkaffið en svo er ég oftast á ferð og flugi yfir daginn hvort sem það er uppi á hálendi, í Reykjavík eða hvar sem er.
Ég hreyfi mig frekar mikið, bæði í gegnum vinnuna en líka bara almennt. Svo er ég alsæl með daginn ef ég næ að hitta á vini eða kunningja og detta í gott spjall.
Uppáhalds lag og af hverju?
Ready or not með The Fugees. Held það sé næstum á öllum playlistunum mínum. Veit ekki nákvæmlega af hverju en það er einhver tregi í því sem nær algjörlega til mín. Líka bara geggjað lag og hljómsveit.
Uppáhalds matur og af hverju?
Pizza. Ekki spurning. Þarf að útskýra það? Annars sushi!
Ég vann sem sushi kokkur í nokkur ár, kynntist þeirri matargerð þokkalega og er mjög hrifin af japanskri matarmenningu.
Besta ráð sem þú hefur fengið?
Það er enginn að fara að lifa þessu lífi fyrir þig.
Hvað er það skemmtilegasta við lífið?
Í fúlustu alvöru þá held ég að hlátur sé það skemmtilegasta sem ég get ímyndað mér!