Eyjamenn komust tvívegis yfir í leiknum en Keflvíkingar skoruðu á lokamínútum hvors hálfleiks og urðu lokatölur því 2-2.
„Mér fannst við vera töluvert betri í fyrri hálfleik og mér fannst við verðskulda að vera í forystu eftir fyrri hálfleikinn. Eftir seinni hálfleikinn held ég að 2-2 sé bara sanngjarnt.“
„Við komumst í flottar stöður. Það fer orka í okkar leikstíl og það var orðið frekar þungt í síðari hálfleik,“ sagði Hermann í leikslok.
Eftir erfiða byrjun á mótinu hefur spilamennska ÍBV batnað til mikilla muna í undanförnum leikjum og stigasöfnunin tekið góðan kipp.
„Liðið hefur verið hrikalega samstillt og verið frábær andi hjá okkur. Menn eru að njóta þess að spila og það skín í gegn hjá okkur. Ég hrósa bara liðinu mínu eftir erfiða byrjun á mótinu. Við mætum í hvern leik til að vinna,“ sagði Hermann.
Þjóðhátíð er í gangi í Vestmannaeyjum þessa helgina og Hermann segir leikmenn sína hafa unnið fyrir því að taka virkan þátt í hátíðahöldunum.
„Strákarnir eiga skilið að að njóta sín og skemmta sér. Þeir eru búnir að vinna fyrir því; framlagið hefur verið upp á 10 á hverri æfingu og í hverjum leik svo við munum njóta okkar í Dalnum, það fer ekki á milli mála,“ sagði Hermann.