„Það brotnaði allt sem brotnað gat,“ segir Guðfinna Bogadóttir eigandi Blómakots í Grindavík. „Það var bara eins og einhver hafi hent inn sprengju, ekki glæsileg aðkoma.“ Hún birti myndir á Facebook síðu Blómakots af gjafavörum og öðru brothættu í molum.
„Þetta var heilmikið tjón, ég hugsa að það slagi upp í milljón.“ Gjafavörur, blómapottar, styttur og diskar eyðilögðust í stóra skjálftanum sem reið yfir við Fagradalsfjall klukkan tólf mínútur í sex í gærkvöldi og var 5,4 að stærð. Skjálftinn fannst víða um land meðal annars í Vestmannaeyjum og í Borgarfirði. Íbúar á Reykjanesskaga urðu þó verstu úti í þessum skjálfta líkt og þeim fyrri.
„Ég held að þetta sé eitthvað sem að venst aldrei,“ segir Guðfinna þegar hún er spurð hvort fólkið á Reykjanesi sé ekki orðið sjóuð í jarðskjálftahrinum.
„Maður gerir sér grein fyrir því, nú þegar þetta byrjar aftur, hvað maður var orðin hvekktur á þessu. Það má eiginlega ekki bíll keyra framhjá án þess að maður haldi að það sé að koma skjálfti,“ segir Guðfinna í léttum tón en bætir við að henni hafi ekki tekist að sofna fyrr en um klukkan 6 í nótt. Jörð skalf enda í alla nótt og voru nokkrir skjálftar sem mældust 4 eða stærri.
„Þetta fór víða svona hér í Grindavík. Ég hef heyrt af þessu líka á veitingahúsunum, glös og fleira sem hefur mölbrotnað. Þetta er í fyrsta sinn sem það brotnar eitthvað hér heima hjá mér, þó lítið,“ segir Guðfinna en svo virðist vera að tilfinning íbúa sé að skjálftinn í gær hafi verið sá kröftugasti á síðustu árum.
Að lokum sagði Guðfinna létt í bragði að þó skjálftarnir sjálfir séu pirrandi sé biðin eftir næsta skjálfta alveg jafn pirrandi.