Handbolti

Hvað ef Shawn Kemp hefði spilað handbolta á Ólympíuleikunum?

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Shawn Kemp, eða Reign Man eins og hann var kallaður, var einn skemmtilegasti leikmaður NBA-deildarinnar á 10. áratug síðustu aldar.
Shawn Kemp, eða Reign Man eins og hann var kallaður, var einn skemmtilegasti leikmaður NBA-deildarinnar á 10. áratug síðustu aldar. getty/Focus

Hvað ef ein skærasta stjarna NBA-deildarinnar hefði spilað með bandaríska handboltalandsliðinu á Ólympíuleikunum í Atlanta 1996? Það virðist ekki hafa verið jafn fjarlægt og það virðist við fyrstu sýn.

Í viðtali við Stürmer Foul frá 2020 rifjaði Svíinn Claes Hellgren upp tíma sinn sem þjálfari bandaríska landsliðsins í handbolta. Hann stýrði því meðal annars á Ólympíuleikunum á heimavelli 1996.

Bandaríkin eru ekki þekkt fyrir afrek sín á handboltavellinum og Hellgren þurfti að hugsa út fyrir rammann þegar kom að því að manna bandaríska liðið fyrir Ólympíuleikana og ná í leikmenn úr öðrum íþróttum.

Í viðtalinu segir Hellgren að sjálfur Charles Barkley hefði haft samband við bandaríska handknattleikssambandið og óskað eftir því að spila með handboltalandsliðinu á Ólympíuleikunum. Hellgren hugsaði sér gott til glóðarinnar að nýta Barkley á línunni. Ekkert varð hins vegar af því vegna óhóflegs tryggingarkostnaðar.

Minnið virðist eitthvað hafa svikið Hellgren. Hann segir að Barkley hafi ekki komist í körfuboltaliðið á Ólympíuleikunum 1996. Það er rangt. Barkley lék með bandaríska liðinu og vann sitt annað Ólympíugull með því.

Körfuboltastjarnan sem um ræðir er annar kraftframherji, Shawn Kemp en hann komst ekki í Ólympíuliðið 1996 þrátt fyrir að hafa farið með Seattle SuperSonics í úrslit NBA-deildarinnar það ár.

Svo virðist sem umboðsmaður Kemps hafi sett sig í samband við bandaríska handknattleikssambandið og leikmaðurinn mætt á nokkrar æfingar. Honum fannst hann hins vegar eiga of margt ólært í handboltafræðunum og gaf tækifærið frá sér.

Bandaríska handboltalandsliðið spjaraði sig ágætlega á Ólympíuleikunum 1996 og endaði í 9. sæti. Það hefði þó vissulega verið áhugavert að sjá Kemp taka slaginn með því.

Á þessum tíma var Kemp einn allra besta og skemmtilegasti leikmaður NBA. Hans er einna helst minnst fyrir kraftmiklar troðslur sem fengu áhorfendur til að rísa úr sætum sínum.

Tímabilið 1995-96 hjálpaði Kemp Seattle að komast í úrslit NBA. Þar tapaði liðið fyrir Michael Jordan og félögum í Chicago Bulls, 4-2. Ári seinna fór Kemp til Cleveland Cavaliers þar sem seig á ógæfuhliðina. Hann lauk ferlinum með Orlando Magic tímabilið 2002-03.

Á ferli sínum í NBA var Kemp með 14,6 stig og 8,4 fráköst að meðaltali í leik. Hann spilaði sex sinnum í Stjörnuleiknum og var þrisvar sinnum valinn í annað úrvalslið NBA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×