Innlent

Tveir unnu fimm milljónir á sama miða­númeri

Bjarki Sigurðsson skrifar
Tveir einstaklingar með sama miðanúmer fá fimm milljónir hvor.
Tveir einstaklingar með sama miðanúmer fá fimm milljónir hvor. Vísir/Vilhelm

Tveir einstaklingar með sama miðanúmer unnu fimm milljónir hvor í ágústútdrætti Happdrættis Háskóla Íslands (HHÍ). Allt að fjórir geta átt miða með sama miðanúmeri.

Aðalútdráttur HHÍ virkar þannig að þú kaupir miða með númeri og bókstaf. Hvert númer getur verið með einum af fjórum bókstöfunum E, F, G, og H. Þá er hægt að kaupa trompmiða sem er einkenndur með bókstafnum B en þá eignastu alla fimm bókstafi númersins.

Þegar númer er dregið fá allir þeir sem eiga miða á því númeri vinninginn. Í þessu tilviki áttu tveir einstaklingar bókstaf á sama númeri og fá því báðir fimm milljónir króna. Hefði annar þeirra keypt miðann sem trompmiða hefði hann unnið 25 milljónir króna.

Í útdrættinum sem fram fór í kvöld hlutu fleiri miðaeigendur vinning og má þar helst nefna sjö sem fengu eina milljón króna hver og tólf sem fengu hálfa milljón króna hver. Næsti útdráttur fer fram 13. september næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×