Umfjöllun og viðtöl: KA 2- 3 Víkingur | Birnir Snær tryggði Íslandsmeisturunum dramatískan sigur

Árni Gísli Magnússon skrifar
Víkingar fagna
Víkingar fagna Hulda Margrét

Víkingur sigraði KA, 2-3, í frábærum fótbolta leik á Akureyri fyrr í dag. KA leiddi 2-1 þegar stundarfjórðungur lifði leiks en Víkingar grófu djúpt og uppskáru sigur með marki frá Birni Snæ Ingasyni á 90. mínútu. 

Víkingar byrjuðu betur og fengu aukaspyrnu á stórhættulegum stað strax á 3. mínútu. Pablo Punyed tók spyrnuna sem var góð en Kristijan Jajalo varði vel í horn.

Einungis tveimur mínútum seinna sóttu Víkingar upp vinstra megin og þar kom fyrrgjöf yfir á fjær þar sem að Helgi Guðjónsson var kominn í flott færi en skaut boltanum vel yfir.

Á 19. mínútu komust Víkingar yfir. Pablo Punyed fékk boltann vinstra megin við teiginn og setti háan bolta inn á teiginn þar sem að Erlingur Agnarsson kom á fljúgandi siglingu og skallaði boltann inn. 1-0 fyrir gestina.

KA tók í kjölfarið miðju en misstu boltann fljótt og fengu skyndisókn í bakið sem endaði með því að Ari Sigurpálsson dúndraði boltanum í slána úr frábæru færi og heimamenn heppnir að vera ekki skyndilega 2-0 undir.

Hasarinn hélt áfram því strax í næstu sókn skallaði Sveinn Margeir boltann í netið fyrir KA eftir sendingu frá vinstri en Erlendur Eiríksson, dómari, sá eitthvað ólöglegt og dæmdi brot í aðdraganda marksins. Leikmenn og stuðningsmenn KA létu óánægju sína bersýnilega í ljós með þessa ákvörðun og varð í raun allt brjálað um stundarsakir.

Sveinn Margeir Hauksson jafnaði leikinn fyrir KA á 38. mínútu. Logi Tómasson var þá að reyna skýla boltanum aftur fyrir endamörk en Steinþór Freyr var áræðinn og hirti boltann af Loga og sendi hann á Svein Margeir í teignum sem átti skot sem fór Í Kyle McLagan og í netið.

Mikill hiti var kominn í leikinn í fyrri hálfleik sem hélt bara áfram í þeim síðari. Eftir rúmlega stundarfjórðung áttu Víkingar frábæra sókn þar sem þeir spiluðu sig í gegnum vörn KA með einnar snertingar fótbolta en lokasendingin var aðeins of löng þar sem Nikolaj Hansen náði ekki að pota stóru tá í boltann og fullkomna sóknina með marki.

Á 67. mínútu var komið að heitasta manni Bestu-deildarinnar; Nökkva Þey Þórissyni. Hann fékk þá boltann í sinni uppáhalds stöðu, úti hægri megin, kom inn á völlinn og smellti boltanum fast yfir Ingvar í markinu og boltinn söng í bláhorninu fjær og KA með 2-1 forystu! Við þetta mark myndaðist gríðarleg stemming og mómentið með heimamönnum.

Rúmum 10 mínútum seinna tókst þó Víkingum að jafna þegar Logi Tómasson tók hornspyrnu beint á kollinn á fyrirliðanum Júlíusi Magnússyni sem var mættur á nærstöngina og stangaði boltann inn. Allt jafn og lítið eftir.

Nokkrum mínútum seinna var Nökkvi kominn í dauðafæri í teignum en skot hans fór í stöngina og út.

Bæði lið reyndu að sækja sigurinn undir lokin og það tókst hjá gestunum þegar Arnór Borg fékk boltann eftir langt útspark frá Ingvari Jónssyni. Arnór sendi boltann á Birni sem átti skot að marki sem hafði viðkomu í varnarmanni og lak undir Kristijan Jajalo í marki KA sem átti að gera betur.

Víkingar fóru því með gríðarlega mikilvægan sigur af hólmi og eru komnir í 2. sæti deildarinnar.

Af hverju vann Víkingur?

Það voru gæði hjá báðum liðum í dag en þetta datt Víkingsmegin. Þeir verða að fá hrós fyrir að brotna ekki þegar KA kemst 2-1 yfir og lítið er eftir. Í staðinn jafna þeir og sigra í lokin með smá heppni.

Hverjir stóðu upp úr?

Hjá Víkingum var Erlingur Agnarsson virkilega vinnusamur og skoraði einnig fyrsta mark leiksins. Pablo Punyed var erfiður viðureigna og Birnir Snær átti flotta innkomu.

Andri Fannar Stefánsson hljóp sennilega manna mest á vellinum í dag og gerði virkilega vel í fjarveru Rodri. Hallgrímur Mar var ógnandi að ógleymdum Nökkva Þey sem skoraði frábært mark enn og aftur.

Hvað gekk illa?

Þetta var virkilega flottur fótboltaleikur en hann ræðst á einstaklingsmistökum. Það gekk illa hjá báðum liðum að loka á sóknir mótherjanna enda gæðin mikil beggja megin.

Hvað gerist næst?

Bæði lið eru komin í undanúrslit Mjólkurbikarsins. Þar mætast Breiðablik og Víkingur á Kópavogsvelli miðvikudaginn 31. ágúst kl. 19:45.

FH og KA mætast svo í hinum undanúrslitaleiknum í Kaplakrika þann 1. september kl. 17:00.

Liðin eiga svo bæði leik í deild á sunnudaginn eftir viku. KA á útileik gegn Fram en Víkingar fá ÍBV í heimsókn í Fossvoginn.

Hallgrímur um titilbaráttuna: „Erum búnir að vera í henni lengi þó aðrir meini eitthvað annað”

Hallgrímur Jónasson er aðstoðarþjálfari KAHulda Margrét

Hallgrímur Jónasson, aðstoðarþjálfari KA, var virkilega svekktur í leikslok eftir að lið hans tapaði á grátlegan hátt gegn Víkingi eftir að hafa verið með pálmann í höndunum í seinni hálfleik.

„Hún er ekki góð, við erum mjög svekktir, og hefðum verið mjög svekktir með jafntefli líka þannig tap er virkilega þungt og eitthvað sem að var ekki sanngjarnt.”

KA var 2-1 yfir þegar stundarfjórðungur lifði leiks. Hvað verður til þess að leikurinn tapast?

„Þetta eru smáatriði, við skjótum hérna í stöng og hefðum getað skorað fleiri mörk. Í mörkunum verjumst við bara ekki nógu vel, við fáum tvö mörk á okkur eftir fyrirgjöf. Í fyrsta markinu erum við með nóg af mönnum í teignum en einhver misskilningur og hann skallar hann bara einn inn. Þeir skora eftir horn þar sem enn og aftur hann er einn og skallar inn þannig við getum sjálfum okkur um kennt. Við skorum tvö mörk á heimavelli, meira segja þrjú, og í stöng sem er nóg en við bara verjumst ekki nógu vel. Það væri gaman að sjá hvort þetta hafi átt að vera aukaspyrna þegar við skorum hérna í fyrri hálfleik.”

Er hægt að skrifa þetta tap á reynsluleysi hjá KA í toppbaráttu?

„Það held ég ekki, spilið er fínt, við höfum ekki verið að fá á okkur mikið af mörkum og ekki eftir föst leikatriði þannig það er eitthvað sem við verðum að gera betur. Ég held að allir sem horfi á leikinn sjái það að við vorum bara að spila fínan fótbolta og áttum klárlega meira skilið úr þessum leik.”

Telur Hallgrímur að KA sé enn inn í titilbaráttunni?

„Já og við erum búnir að vera það lengi og þó aðrir meini eitthvað annað. Þið sjáið það bara í dag að þetta eru Íslandsmeistarar og eru ljónheppnir að fara héðan með þrjú stig. Við að mínu mati gerum betur í þeir, við unnum ekki í dag, en það er nóg eftir, nóg af stigum í pottinum og við finnum það bara sjálfir, leikmenn og allir í kringum þetta, að við erum hérna virkilega til að keppa um þetta.”

„Erum ekki tvöfaldir meistarar að ástæðulausu”

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings.Vísir/Diego

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, var virkilega sáttur með endurkomusigur síns liðs á móti KA.

„Það var mikið í húfi. Við töluðum um að þetta yrði góður leikur núna. Þetta var kaflaskiptur leikur, þeir áttu sín móment, við áttum okkar móment og einhvern veginn fundum við kraft til að klára leikinn af því þetta leit nú ekkert sérlega vel út fyrir okkur í stöðunni 2-1 og mér fannst við vera svona hálf soft einhvern veginn á boltann og missa boltann á auðveldum stöðum og fá á okkur ódýr mörk eins og hefur verið í sumar en einhvers staðar fundum við kraftinn og karakter til að klára leikinn og það má ekki gleyma gæðunum heldur.”

Á 76. mínútu komst KA 2-1 yfir og útlitið ekki gott fyrir Víking. Hvar fundu Arnar og hans menn kraftinn til að koma til baka og sigra leikinn?

„Þetta er bara tilhugsunin að missa titilinn úr höndunum. Ég sagði það fyrir leikinn að ef við töpum leiknum í dag erum við bara úr leik og þetta er ekkert flóknara en það og sú tilhugsun gefur mönnum bara auka kraft og við erum ekki tvöfaldir meistarar að ástæðulausu. Það er karakter í liðinu, við höfum sýnt það og sannað í allt sumar undir erfiðum kringumstæðum og hrós á strákanna sem koma af bekknum. Mjög flottur sigur í alla staði.”

Arnar telur þó að KA sé enn á lífi í titilbaráttunni.

„Já klárlega, þeir verða miklir örlagavaldar í þessu móti, eiga bæði eftir að taka á móti Blikum hérna og svo eru fimm leikir í úrslitakeppninni þar sem þeir geta halað inn stigum og það er nóg eftir af þessu móti. Þetta mun fara alveg fram á síðasta dag, ég lofa þér því!”

Nikolaj Hansen kom inn á í hálfleik fyrir Ara Sigurpálsson. Arnar segir það hafa verið taktíska breytingu.

„Já þetta var taktískt, við vorum undir bara, við erum með frábæra stráka, unga stráka, en þegar þú ert með unga stráka þá eiga þeir stórleik og svo eiga þeir dapran leik inn á milli og það er bara það sem þú verður að sætta þig við og þeir verða bara að læra af þessu. Við þurftum smá líkamlega yfirburði í seinni hálfleik, Niko (Nikolaj Hansen) kom með það og svo kom Birnir sterkur inn af bekknum sem sýnir bara hvað hópurinn er sterkur en við þurftum smá meira boost og smá meiri líkamleg átök því að KA menn voru að taka á okkur í fyrri hálfleik og mér fannst við vera undir í þeirri baráttu.

Er þetta statement sigur hjá Víking að koma norður og hirða öll stigin?

„Jú klárlega, þetta gríðarlega erfiður útivöllur, og eins og ég sagði fyrir leikinn þá eru þeir búnir að vinna fjóra leiki röð og það þurfti alvöru lið til að stoppa þá. Hvort sem sigurinn var sanngjarn eða ekki skiptir bara engu máli núna, við unnum sigurinn, fengum þrjú stigin og förum glaðir heim”, sagði Arnar að endingu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira