Ísland hefur skrifað undir alþjóðlegar skuldbindingar um 29% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda árið 2030 miðað við losun ársins 2005. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er sett fram enn metnaðarfyllra landsmarkmið um 55% samdrátt. Það þýðir að draga þarf úr losun um 1,3 milljónir tonna koltvísýringsígilda (CO2í) á næstu 8 árum. Að auki hefur kolefnishlutleysi árið 2040 verið lögfest.
En aðgerðir stjórnvalda hafa undanfarið ekki verið í neinu samræmi við skuldbindingar og metnaðarfull markmið. Á ríkið getur fallið kostnaður sem nemur allt að 10 milljörðum kr. á ári náist samdráttarskuldbindingar ekki í tæka tíð og í því samhengi er rétt að vekja athygli á því að samkvæmt fjármálafrumvarpinu sem lagt var fram í vikunni áformar ríkið að greiða 800 milljónir kr. í ljósi vanefnda á þessu sviði. Nýkynnt fjárlagafrumvarp varpar ljósi á áform sem munu vinna harkalega gegn því að við stöndum við skuldbindingar. Allt útlit er fyrir að útsöluverð rafbíla muni hækka um þriðjung á næsta ári vegna aðgerða stjórnvalda.
Umsnúningur
Samkvæmt nýjum upplýsingum frá Umhverfisstofnun jókst innanlandslosun um 1,9% árið 2021 og því nam losunarsamdráttur frá 2005 aðeins 11,6%. Það er bakslag því árið 2020 hafði losunin dregist saman um 5,2%. Með auknum ferðamannastraumi og auknum efnahagsumsvifum má búast við að enn súrni staðan árið 2022.
Efnahagslegt sjálfstæði
Orkuskipti í samgöngum eru komin vel af stað. Þau eru ekki bara loftslagsmál heldur einnig mikilvægt efnahagsmál. Á tímum hárrar verðbólgu í Evrópu erum við í öfundsverðri stöðu, óháð erlendri orku við húshitun, lýsingu og framleiðslu. Orkuskiptin stuðla ekki síður að efnahagslegu sjálfstæði og stöðugu verðlagi. Áhersla á rafvæðingu í samgöngum mun leiða til styrkingar flutningsnets raforku og aukinnar hagkvæmni. Ávinningur orkuskipta er því gríðarlega mikill. Skiljanlega hafa stjórnvöld því hingað til stefnt að hröðum orkuskiptum í vegasamgöngum og m.a. sett sér það markmið að 100.000 skráðir rafbílar eða önnur vistvæn ökutæki verði á götunum á Íslandi árið 2030.
Efnahagslegir hvatar virka
Hreinir rafmagnsbílar eru enn dýrir í innkaupum. Úrval þeirra hefur verið að aukast, tæknin er tilbúin og fjárfesting bifreiðaframleiðenda í framleiðsluþáttum rafbíla orðin gífurleg. Stjórnvöld hafa innleitt ívilnanir í formi skattafslátta, m.a. í kerfum virðisaukaskatts og bifreiðagjalds, sem hvetja einstaklinga og fyrirtæki til kaupa á tengiltvinnbílum, hreinum rafbílum, vetnisrafbílum og metanbílum. Kaupendur hafa einnig notið þess að raforkuverð er hér tiltölulega lágt. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa og hafa heimili og fyrirtæki nýtt sér fyrrgreindar ívilnanir, bílaumboðin byggt upp þjónustunet fyrir rafbíla og aukið markaðssetningu og innflutning á bílum sem undir þær falla og þjónustufyrirtæki byggt upp hleðslunet fyrir rafbíla víða um land. Afleiðingin er sú að vistvænum bílum fjölgar dag frá degi.
Áhersla á rafvæðingu í samgöngum mun leiða til styrkingar flutningsnets raforku og aukinnar hagkvæmni. Ávinningur orkuskipta er því gríðarlega mikill.
Til að markmiðum um samdrátt losunar frá vegasamgöngum verði náð árið 2030 þarf um helmingur ökutækjaflota Íslendinga að vera rafknúinn í lok þess árs. Eins og staðan er um þessar mundir er útlit fyrir að aðeins fjórðungur verði þá rafknúinn, lítið af sendibílum og nánast ekkert af stórum flutningabílum og vinnuvélum.
Fjárlagafrumvarpið
Stjórnvöld hafa vikið sjónarmiðinu um að skattar af umferð standi undir uppbyggingu og viðhaldi umferðarmannvirkja tímabundið til hliðar í ljósi loftslags- og orkuskiptamarkmiða. En nú er komið annað hljóð í strokkinn. Fjárlagafrumvarpið er komið fram og þar eru tíunduð áform um álagningu 5% vörugjalds á rafbíla og hækkun bifreiðagjalds á eigendur bifreiða sem nemur rúmlega 15 þús. kr. á ári. Í maí 2022 runnu alfarið út ívilnanir vegna kaupa á tengiltvinnbílum og engar alvöru lausnir hafa komið fram sem ætlað er að hvetja bílaleigur til kaupa á rafbílum. Ívilnanir vegna kaupa fyrirtækja á sendibílum, þungaflutningabílum eða vinnuvélum í nafni orkuskipta eru enn einungis á hugmyndastigi þrátt fyrir að nú séu slík tæki að koma á markaðinn. Þau nota mikla orku við notkun og því er til mikils að vinna að orkuskiptin gangi vel. Ekki er orði á það minnst í fjárlagafrumvarpinu að eitthvað fleira sé í pípunum.
Rafbílar hækka verulega
Stjórnvöld virðast vera að snúa af braut hraðra orkuskipta. Þegar hefur verið ákveðið að virðisaukaskattur hækki um allt að 240.000 kr. af rafbílum yfir 5,5 millj. kr. þann 1. janúar 2023. Á sama tíma hækka rafbílar um 5% til viðbótar vegna breytinga á vörugjaldi. Allar ívilnanir munu falla niður einhverntíma á árinu 2023 þegar 20.000 rafbílar hafa verið nýskráðir og kvótinn þá uppurinn. Auk þess munu bifreiðagjöld rafbíla hækka eins og áður segir. Þá mun sú staða verða uppi að virðisaukaskattur og vörugjöld á rafbíla hafi hækkað um allt að 1.880.000 kr. frá því sem nú er og rekstrarkostnaður hækkað. Í tilviki rafbíls sem kostar um 6,5 milljónir króna getur hækkun kaupverðs numið um 30%.
Engin hvati í rekstrarkostnaði
Í fjárlagafrumvarpinu, og kynningu ráðherra, var gefið til kynna að áfram yrðu til staðar umtalsverðir hvatar til orkuskipta, einkum í formi rekstrarkostnaðarhagræðis. En þar gleymdust nokkur mikilvæg atriði. Áfram var t.d. gert ráð fyrir 1.320.000 kr. niðurfellingu virðisaukaskatts sem þó mun renna sitt skeið á næsta ári. Þá virðist ráðherra aðeins hafa dregið ályktanir út frá veruleika hugmyndafræði skattkerfisins en ekki raunveruleikanum.
Samtals getur kaupverð rafmagnsbíla hækkað um 1.880 þús. kr. og þá hækkun þurfa kaupendur að fjármagna. Þeir sem taka ákvörðun um bifreiðakaup og taka tillit til rekstrarkostnaðar munu reikna hann. Án tillits til afskrifta og viðhalds- og viðgerðarkostnaðar, miðað við 15.000 km akstur á ári og 8% fjármagnskostnað af verðmuninum mun árlegur rekstrarkostnaður bensínbílsins nema 518.000 kr. en 410.300 kr. í tilviki rafmagnsbílsins. Það mun því taka kaupanda rafmagnsbílsins 17 ár að láta lægri rekstrarkostnað rafmagnsbílsins vega upp hækkunina. Sé afskriftum bætt við á ári hverju verður staðan vonlaus fyrir kaupanda rafbílsins. Efnahagslegu hvatarnir hafa því verið afnumdir.
Glötuð tækifæri
Hvaða skilning lögðu stjórnvöld í eftirfarandi orðalag stöðuskýrslu Aðgerðaráætlunar í loftslagsmálum frá nýliðnu sumri: „Mest tækifæri liggja í orkuskiptum í samgöngum“? Hætta ber leik löngu áður en hæst hann stendur?
Orkuskiptin munu skapa íslensku þjóðinni, heimilum og fyrirtækjum, einstakan ávinning til lengri tíma litið. Það skilja Norðmenn.
Í stefnuræðu forsætisráðherra í gærkvöldi kvað þó við annan tón. „Til að ná hertum markmiðum munum við endurskoða fyrirliggjandi aðgerðaáætlun og setja fram sameiginleg markmið stjórnvalda og allra geira samfélagsins um hverju hver og ein atvinnugrein getur skilað í samdrætti í útblæstri.“
Hvað gera Norðmenn?
Aðildarfyrirtæki Bílgreinasambandsins og SVÞ - Samtaka verslunar og þjónustu vilja að Ísland verði áfram í forystu í baráttunni við loftlagsbreytingar með hröðum orkuskiptum í vegasamgöngum. Samkvæmt bráðabirgðatölum Umhverfisstofnunar fyrir árið 2021 er orkunotkun ábyrg fyrir 61% af losun gróðurhúsalofttegunda sem er á beinni ábyrgð Íslands og vegasamgöngur bera ábyrgð á 31% af þeirri losun auk 2% vegna véla og tækja. Losunin í þessum geirum var því 918 tonn af CO2í sem er 3,5% aukning frá fyrra ári.
Í samtökunum eru fyrirtæki í verslun, þjónustu og flutningum sem nota bíla og tæki í sinni starfsemi og bílgreinafyrirtæki sem þekkja til hlítar möguleikana til orkuskipta. Nú er kjörið tækifæri að hefja samtalið, skapa fyrirsjáanleika, leita leiða að markmiðum og styðja einstaklinga og fyrirtæki til fjárfestinga í vistvænum ökutækjum og vinnuvélum og hraða þannig orkuskiptum. Orkuskiptin munu skapa íslensku þjóðinni, heimilum og fyrirtækjum, einstakan ávinning til lengri tíma litið. Það skilja Norðmenn sem aðlaga ívilnanir að mismunandi bíla og tækjaflokkum, markaðsþróun og fyrirhuguðu banni gegn nýskráningum bifreiða sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti árið 2025 en fella þær alls ekki niður.
Það mun ekki standa á aðildarfyrirtækjum samtakanna að bregðast við ákalli forsætisráðherra. Við erum við símann núna!
Höfundar eru Jón Ólafur Halldórsson, formaður SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu, og Egill Jóhannsson, stjórnarmaður í Bílgreinasambandinu