Þetta kemur fram í umsögn kirkjuþings Þjóðkirkjunnar um svokallaðan bandorm með fjárlagafrumvarpinu.
Þar segir að tilfinningin sé sú að miklu fleiri söfnuðir séu í fjárhagsvanda en að einhverju leyti sé vandanum ýtt á undan með því að draga úr þjónustu og starfi og fresta viðhaldi fasteigna.
Í umsögninni, sem ber yfirskriftina „Samantekt vegna skerðingar sóknargjalda 2009 til 2023“, segir að viðvarandi og síaukinn niðurskurður sóknargjalda hafi hafist árið 2009 og að einungis helmingi sóknargjalda verði skilað til safnaða á næsta ári miðað við fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp.
Samkvæmt forsendum fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2023 ætti heildarframlag til sóknargjalda til að mynda að vera 3,2 milljarðar en verði í raun 2,9 milljarðar.
„Það segir sig sjálft að enginn rekstur getur þolað tekjufall á bilinu 40 - 50% árum saman án þess að það hafi alvarleg áhrif. Því til viðbótar hefur verðbólga undanfarna mánuði og miklar vaxtahækkanir gert stöðuna enn verri,“ segir í umsögninni.