Innlent

62 mál skráð hjá lögreglu og fjöldi stöðvaður í umferðinni

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Það var nóg að gera hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt, ekki síst í umferðinni.
Það var nóg að gera hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt, ekki síst í umferðinni. Vísir/Vilhelm

Alls voru 62 mál skráð hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt en mörg þeirra vörðuðu fólk í umferðinni; ökumenn sem voru undir áhrifum eða fóru ekki eftir umferðarreglum.

Einn var sektaður fyrir að aka með of marga farþega í bifreið sinni og aðrir sektaðir fyrir að aka yfir á rauðu ljósi og of hraðan akstur. Þá voru nokkrir stöðvaðir vegna gruns um að vera undir áhrifum áfengis, fíkniefna eða bæði.

Lögreglu bárust einnig tilkynningar vegna tveggja umferðarslysa. Í öðru tilvikinu var ekið á gangandi vegfarenda en hann kenndi sér einskins meins og var ekið heim til sín. Þá barst ein tilkynning um að ekið hefði verið utan í bifreið og stungið af.

Rétt eftir miðnætti var tilkynnt um ógnandi einstakling í fyrirtæki í póstnúmerinu 105 og var hann handtekinn grunaður um brot á lögreglusamþykkt Reykjavíkurborgar. Einnig var tilkynnt um skemmdarverk í póstnúmerinu 108 og var einn handtekinn í tengslum við málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×