Fyrirtaka fór fram í máli Husseins í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Þar fór Claudia Wilson, lögmaður hans fram á að gefin verði út vitnakvaðning í málinu en dómari mun taka afstöðu til þess á fimmtudaginn.
Sérstakar aðstæður
Lögmaðurinn segir sérstakar og fordæmalausar aðstæður uppi í máli Husseins. Hann sé mjög fatlaður og eigi erfitt með tjáskipti. Vegna þessa segir Claudia að skýrslutakan þurfi að fara fram í gegnum millitúlk þar sem málið fari fram á íslensku, ensku og sorani-tungumáli.
„Það gerir það frekar flókið að gera það í gegnum fjarskiptabúnað. Réttargæslumaður hefur reynt að tala við hann í gegnum fjarfundabúnað með túlk og það gekk ekki upp. Það endaði með því að tala þurfti við skyldmenni hans. Spurningin er þessi: Hvers vegna á hann, fatlaður maður, ekki að hafa sama aðgang að dómstólum og aðrir?“ spyr Claudia Wilson, lögmaður Hussein Hussein.
Sérstaklega í ljósi jákvæðra skyldna stjórnvalda.
„Það er alveg klárt að það er liður í því að tryggja réttláta málsmeðferð að hann fái tækifæri til að segja frá sinni reynslu og upplifun í þessu máli. Hann einn er bær um að gera það, ekki ég.“
Fluttur í leyni
Dvöl erlendis eigi ekki að koma í veg fyrir vitnakvaðningu.
„Við höfum aldrei séð það að fatlaður maður sé fluttur úr landi með þessum hætti, í leyni og án þess að lögmaður hans sé upplýstur um það og án þess að lögmaður hafi aðgang að skjólstæðingnum. Þannig að allt í þessu máli er fordæmalaust og það kallar á fordæmislausar aðgerðir.“
Aktívistinn Sema Erla segir Hussein hafa síðustu daga farið á milli spítala í Aþenu í leit að heilbrigðisþjónustu. Hann sé mjög veikur og þurfi að komast undir læknishendur en komi alls staðar að lokuðum dyrum.