Næstu daga er spáð töluverðri rigningu í landshlutanum, sérstaklega á fimmtudag og föstudag. Gert er ráð fyrir hlýnun í veðri næstu daga og sá snjór sem féll í dag mun þá líklega taka upp. Hætta er á skriðum við þessar aðstæður og hún getur aukist í úrkomu næstu daga, segir í tilkynningu frá Almannavörnum.
Vöktunarbúnaði hefur verið komið upp á Seyðisfirði þar sem sérstaklega er fylgst með skriðuhættu. Í nóvember hefur mælst hreyfing í Neðri-Botnum og Þófa. Mesta hreyfingin hefur verið á Búðarhrygg en þar voru miklar hreyfingar síðasta haust, segir enn fremur.
Veðurstofan fylgist vel með aðstæðum allan sólarhringinn og er í góðum samskiptum við Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og lögregluna á Austurlandi.