Jólalest Coca-Cola er fastur liður í aðventunni hjá mörgum en í ár keyrir hún í kringum höfuðborgarsvæðið 27 árið í röð. Hún mun leggja af stað klukkan 17 í dag frá Stuðlahálsi í Árbænum.

Lestin ferðast í fylgd lögreglu og hjálparsveit skáta. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu beinir því til fólks að sýna aðgát og koma ekki of nálægt henni.
Hægt verður að fylgjast með ferð lestarinnar í raun tíma á vefsíðunni jolalestin.is. Þannig geta þeir sem vilja berja hana augum fylgst með staðsetningu hennar heima í hlýjunni og farið svo út í kuldann þegar hún nálgast.